ArnaVille

Ég er nörd. Ég hef líklega alltaf verið nörd, en það að hafa búið með Þóri mínum í rúmlega 7 ár hefur heldur ekkert dregið úr nördaskapnum. Við erum nefnilega bæði yfirlýstir nördar ... og ég fílaða!

Við tölum um Terry Pratchett og Harry Potter eins og þeirra heimar séu til. Við fílum Star Wars meira en Star Trek – þó ég hafi meiri þolinmæði en Þórir gagnvart Star Trek. Uppáhalds sjónvarpsstöðin okkar er Discovery og við gáfum börnunum okkar DVD diska um daginn ... af því okkur langaði í þá (Einu sinni var er til hér á hollensku – ódýrt m.a.s.!!!)

Nördaskapurinn á heimilinu nær hámarki þegar við tölum um tölvur – og tölvuleiki. Ég kann lingóið þó ég hafi nú sjálf ekki lanað á sínum tíma. Ég stend mig að því að senda ömmu minni skilaboð á msn með lingóinu; ROFL, LOL, THX o.s.frv. M.a.s. slóðin að þessu bloggi og nikkið mitt á hinum ýmsu spjallrásum ber þess vitni að ég er nörd – ég semsagt tók bara kvenkynsútgáfu af LAN-nikkinu hans Þóris. Hann er Nex og ég er Nexa.

Við hjónakornin spilum ekki alltaf sömu leikina, þó við höfum í sameiningu tekið Crash Bandicoot nokkur level (sko, lingó!) og urðum bæði ágætlega háð Heroes of Might and Magic. Hann dundar sér við það að þykjast vera hermaður í seinni heimstyrjöldinni og ég dunda mér við að byggja upp bæ á Facebook með vinum mínum allsstaðar að úr heimunum (flesta þeirra hef ég aldrei hitt). Systur minni þykir þetta alger hneisa og gerir mikið grín að nördaskapnum í mér þó hún sé sjálf algert fótboltanörd.

Nördahjónin sem við erum ákváðum að leyfa Árna að fá PS2 vélina upp til sín og er meiningin að hann fái að leika sér undir eftirliti. Hann var fljótur að komast að því að Eye-Toy og Singstar er bara skemmtilegt ef einhver er með og er fyrrnefndur Crash Bandicoot í uppáhaldi þessa dagana. Þegar við uppgötvuðum að 2 vikum eftir að hafa fengið vélina var drengurinn kominn framúr okkur í Crash fylltumst við stolti yfir því hve drengurinn er klár ... og síðan skelfingu yfir því að tölvan myndi taka yfir líf hans...



BTW (lingó!); ég keypti rosa flotta peysu á Þóri fyrir veturinn í gær. Hann er búinn að lofa mér því að vera í henni næst þegar mamma og pabbi koma í heimsókn. Þau eiga alveg eftir að fíla Darth Vader myndina framan á henni...

 

Orðafjöldi: 400


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband