Færsluflokkur: Bloggar

Helgin sem var að líða

Alexandra kom aftur í heimsókn til okkar fyrir helgi og var fram á sunnudagskvöld. Eins og venjulega var því fjör hjá okkur, þó nýjabrumið sé farið af heimsóknunum og við erum ekki lengur í “gestgjafa-gírnum” þegar hún kemur. Alex og Valdi komu með krakkana í bæinn á föstudaginn og hittu mig eftir vinnu. Við tókum ágætis rölt á Vismarkt og keyptum grænmeti, ávexti, krydd og hnetur. Krakkarnir virðast hafa verið með sparibrosið því sá sem við keyptum hneturnar af gaf Árna tyrkneskt nammi (sem hann deildi með Iðunni), ávaxtasalinn gaf þeim mandarínur og grænmetis/ávaxtasalinn gaf þeim banana. Þau voru ansi ánægð með ferðina – og skopparaboltana sem Alex gaf þeim (móður þeirra til ama).

Um kvöldið bökuðum við pizzur a’la Arna og gerðum tilraunir með hvítlaukspizzugerð – sem varð eiginlega hvítlauks-kex... Svo skrapp ég í Lidl rétt fyrir lokun og kláraði matarinnkaup vikunnar.

Á laugardaginn fórum við með Árna að keppa í Veendam og þar sem Valdi og Alex fóru ekki á djamm á föstudeginum (surprice!) kom Alex með. Restinni af laugardeginum var eytt í miðbænum þar sem Þórir fékk loksins nýjan síma (þá erum við bæði búin að losa okkur við Samsung ógeðið) og krakkarnir fengu íþróttadót á McDonalds (?!?!?). Þórir, Valdi og Alex sátu lang fram á kvöld við borðstofuborðið að spila, en þar sem hausverkurinn minn er ekkert að fara ákvað ég bara að liggja upp í sófa og slaka á fyrir framan sjónvarpið.

Sunnudagurinn fór svo mestmegnis í leti og knús með krökkunum. Við reyndar náðum að smíða næstum helminginn af Barbí-húsinu handa Iðunni.

 

Ég veit; ekki skemmtilegasta blogg sem ég hef skrifað – bara að þessi andsk*** hausverkur hverfi nú á næstunni!

 

Orðafjöldi: 274


Engin orð - bara myndbönd af dansandi börnum

 


Samsung vs Nokia

Myndavélin í gamla Nokia símanum mínum var orðin ansi þreytt fyrir nokkrum mánuðum síðan. Þar sem ég er yfirleitt ekki með myndavél á mér er síminn aðal tækið sem ég nota til myndatöku og því var þetta afar leiðinlegt. Ég fór því til Vodafone til að endurnýja samninginn minn og fá nýjan síma. Drengurinn hjá Vodafone spurði mig hvað ég vildi að síminn gæti og ég sagði að hann þyrfti að hafa góða myndavél og góða dagbók. Allt annað væri bara auka, fínt að hafa, en ekki nauðsynlegt.

Drengurinn sannfærði mig um að taka Samsung 360 síma – sérstakur Vodafone sími sem átti að geta gert bókstaflega allt. Hmmm...

Til að gera langa sögu stutta var ég hreint ekki ánægð með þennan Samsung – dagbókin virkaði aldrei eins og hún átti að gera og ég get ekki sett neitt auka í símann án þess að það sé í gegnum Vodafone búðina (með tilheyrandi kostnaði) og batteríið tæmdist bara eins og því sýndist (dugði 4 tíma einn daginn, en fór bara niður um eitt strik annan daginn). Svo var þetta óféti líka alltaf að frjósa!

Í gær vaknaði ég við það að ég var að verða of sein í vinnuna: Síminn – í hleðslu – ákvað að slökkva á sér og því vakti hann mig ekki. Öskuill arkaði ég því beinustu leið eftir vinnu upp í Vodafone, talaði við verslunarstjórann og sagði að nú væri ég alveg komin með nóg af þessu drasli. Miðað við glottið á manninum þá kannaðist hann alveg við hvað ég var að segja og með 35 evru greiðslu og ársframlengingu á samningnum mínum gekk ég út með glænýan Nokia C6-00. Allt annað líf!

Og ég get séð dagbókaratriði dagsins á forsíðunni!

Orðafjöldi: 281


“Ætlar þú þá ekki að fá þér kvöldmat?!?”

Hollendingar er óskaplega vanafastir og eiga erfitt með að skilja venjur annarra. Hér er venjan að allir taka samlokur með sér í vinnuna (bara með einu áleggi – skinka og ostur á sömu samlokuna er óþarfi og dýrt) og fara svo í mötuneytið með sínar samlokur og kaupa sér súpu og mjólk. Ég er komin með alveg upp í kok á öllu þessu brauði og er löngu hætt að kaupa súpuna (sem er yfirleitt of sölt), þ.a. ég minntist á það við mína yfirmenn hvort ég mætti ekki kaupa mér örbylgjuofn (fyrir mína peninga) og setja inn í kaffihornið okkar. Svarið var þvert nei – það er ekki pláss fyrir svoleiðis vitleysu! Ég má heldur ekki hafa örbylgjuofn á skrifstofunni minni vegna eldhættu. Ég reyndi að útskýra það að ég hef ekki alveg efni á því að kaupa mér 5 evru mat á hverjum degi og að brauð sé ekki alveg það sem mig langar í öll hádegi, þ.a. ég vildi gjarnan geta tekið með mér afganga kvöldsins áður og hitað mér í hádeginu (ekki að það komi þeim við hvað ég ét). Viðmótið sem ég fékk við því var “getur þú bara ekki étið brauð eins og allir aðrir?”.

Ég gafst upp á þessu stríði, enda ekki gott að hafa nornina upp á móti sér út af svona smámálum. Ég fór því í hverju hádegi og skimaði mötuneytið eftir einhverju hollu, en endaði yfirleitt með því að kaupa mér grillaða samloku eða rándýrt pasta. Jú jú, það er víst salatbar hér, en allt grænmetið er annað hvort syndandi í ediki (ojbarasta) eða löðrandi í majonesi. Ég byrjaði því að fitna aftur og fór að taka eftir bjúg í fyrsta skipti á ævinni – ég fékk ekki einu sinni bjúg á meðgöngu!

Eitthvert kvöldið í síðustu viku sat ég við kvöldverðarborðið með Þóri og Valda og minntist á þetta stríð um hádegisverðinn. Þórir viðurkenndi það að hann væri nú sjálfur orðinn soldið leiður á brauði endalaust og við fórum að spá í hvað við gætum gert. Talið barst að því þegar við vorum á danska kúrnum um árið (10kg fuku á 10 vikum!!) og hversu vel okkur leið á þeim tíma. Það var því ákveðið að við Valdi ættum að raða saman 12 matseðlum með fjölbreyttu matarræði og gera ráð fyrir því að hafa alltaf salat með kvöldmatnum (Ég geri undirsíðu með því þegar allt er tilbúið). Á meðan við erum að elda kvöldmatinn skerum við aukalega grænmeti í nesti fyrir okkur Þóri og setjum í box. Við ætlum líka að hætta að kaupa sósur og gerum nú allar sósur sjálf með jógúrti, léttmajonesi og allskonar kryddi. Sterkt plan Grin

Í gær var fyrsti dagurinn minn með “nýja nestið”. Ég hafði smurt mér eina samloku með kæfu og var með salat og gulrót með, ásamt dýrindis hvítlaukssósu. Þegar ég var búin að fá mér nokkra munnbita tók ég eftir því að einum vinnufélaga mínum var starsýnt á boxið mitt. Eftir smá stund kom spurningin: “Eet je dan geen avondseten?”

Orðafjöldi: 496


Túristast í Groningen

Ég vil byrja þessa færslu á að óska sætustu litlu frændum okkar, sem urðu 1 árs og 3 ára um helgina, til hamingju með afmælið! Það var pínulítið sárt að geta ekki mætt í útskrift litla bró og afmæli sonar hans á laugardaginn og afmæli hjá systursyni Þóris á sunnudaginn. Þetta er gjaldið sem við þurfum að greiða fyrir að búa í útlöndum.


Við bættum okkur hins vegar upp veisluleysið með því að fá frænku mína og kærasta hennar í heimsókn. Þau eru í námi í Amsterdam og ég vona að þau komist oftar til okkar.
Þrátt fyrir rok og rigningu (mikið var ég fegin að það var enginn fótbolti á laugardaginn) lögðum við í bæjarferð með gestunum og lékum túrista í Groningen. Við sýndum þeim stóra salinn í lestarstöðinni, bænahúsið með læstu hurðinni og kíktum í nokkrar skemmtilegar búðir í Volkingestraat. Við kíktum líka inn í A-kerk, sem er eiginlega ekki notuð sem kirkja lengur, og í Hanza-búðina sem er áföst A-kerk. Að lokum kíktum við inn í hollenska skrípósafnið og urðum að draga börnin þaðan út áður en lokaði. Aðspurður sagði Árni að það hafi ekki verið gaman í skrípósafninu, af því hann fékk ekki tíma til að skoða allt eins vel og hann vildi. Við ákváðum þess vegna að á morgun mun hann njóta haustfrísins með Valda og Iðunni og deginum verður eytt í skrípósafninu.

Eftir góðan dag var haldið heim og skellt í bernaise-kjúlla með helling af salati og gúmmelaði-marengs-berja-rjóma eftirrétt. Mmmm – lekker!

Orðafjöldi: 247


Örblogg um dans

Ég hef áður viðurkennt það að hafa gaman að hvers kyns raunveruleikaþáttum. Ég nýti mér dálæti Hollendinga á þessum þáttum og horfi mikið á hollenskar útgáfur enskra og bandarískra hæfileikaþátta, þ.á.m. "So You Think You Can Dance". Litlu elskurnar mína deila þessum áhuga mínum á dansþáttum og ég er farin að taka upp þessa þætti og sýna þeim þegar þau hafa hagað sér einstaklega vel og eru dugleg að fara í náttfötin á kvöldin.

Í gær voru þessar elskur eldsnöggar í náttfötin og komu sér þægilega fyrir upp í sófa til að horfa á dansinn. Eftir fyrstu kjaftatörn kynnanna var ég vinsamlegast beðin um að spóla bara framhjá þessu leiðindafólki og sýna bara skemmtilegu hlutana. Áður en ég vissi af voru þau komin upp að tækinu, rýndu í hreyfingar dansaranna og tóku til við að apa eftir þeim:

 

 

Mér sýnist ég þurfa að fara að taka þessi náttföt hans Árna úr umferð...

 

Þessa færslu vantar 48 orð upp á 200 orðin - enda örblogg...


ArnaVille

Ég er nörd. Ég hef líklega alltaf verið nörd, en það að hafa búið með Þóri mínum í rúmlega 7 ár hefur heldur ekkert dregið úr nördaskapnum. Við erum nefnilega bæði yfirlýstir nördar ... og ég fílaða!

Við tölum um Terry Pratchett og Harry Potter eins og þeirra heimar séu til. Við fílum Star Wars meira en Star Trek – þó ég hafi meiri þolinmæði en Þórir gagnvart Star Trek. Uppáhalds sjónvarpsstöðin okkar er Discovery og við gáfum börnunum okkar DVD diska um daginn ... af því okkur langaði í þá (Einu sinni var er til hér á hollensku – ódýrt m.a.s.!!!)

Nördaskapurinn á heimilinu nær hámarki þegar við tölum um tölvur – og tölvuleiki. Ég kann lingóið þó ég hafi nú sjálf ekki lanað á sínum tíma. Ég stend mig að því að senda ömmu minni skilaboð á msn með lingóinu; ROFL, LOL, THX o.s.frv. M.a.s. slóðin að þessu bloggi og nikkið mitt á hinum ýmsu spjallrásum ber þess vitni að ég er nörd – ég semsagt tók bara kvenkynsútgáfu af LAN-nikkinu hans Þóris. Hann er Nex og ég er Nexa.

Við hjónakornin spilum ekki alltaf sömu leikina, þó við höfum í sameiningu tekið Crash Bandicoot nokkur level (sko, lingó!) og urðum bæði ágætlega háð Heroes of Might and Magic. Hann dundar sér við það að þykjast vera hermaður í seinni heimstyrjöldinni og ég dunda mér við að byggja upp bæ á Facebook með vinum mínum allsstaðar að úr heimunum (flesta þeirra hef ég aldrei hitt). Systur minni þykir þetta alger hneisa og gerir mikið grín að nördaskapnum í mér þó hún sé sjálf algert fótboltanörd.

Nördahjónin sem við erum ákváðum að leyfa Árna að fá PS2 vélina upp til sín og er meiningin að hann fái að leika sér undir eftirliti. Hann var fljótur að komast að því að Eye-Toy og Singstar er bara skemmtilegt ef einhver er með og er fyrrnefndur Crash Bandicoot í uppáhaldi þessa dagana. Þegar við uppgötvuðum að 2 vikum eftir að hafa fengið vélina var drengurinn kominn framúr okkur í Crash fylltumst við stolti yfir því hve drengurinn er klár ... og síðan skelfingu yfir því að tölvan myndi taka yfir líf hans...



BTW (lingó!); ég keypti rosa flotta peysu á Þóri fyrir veturinn í gær. Hann er búinn að lofa mér því að vera í henni næst þegar mamma og pabbi koma í heimsókn. Þau eiga alveg eftir að fíla Darth Vader myndina framan á henni...

 

Orðafjöldi: 400


Mark!!

Það var svo erfitt að koma sér aftur í vinnu eftir svona fína helgi – sérstaklega vitandi af Þóri heima með krökkunum. Nýja verkefnið hans byrjar á morgun, þ.a. hann var í fríi á föstudaginn og í dag. Ég slapp því við búðarferðina á laugardaginn af því hann sá um það á meðan krakkarnir voru í skólanum – þvílíkur lúxus!

 

Árni fór að keppa á laugardaginn (á sama ókristilega tímanum og venjulega) og stóð ég við hliðarlínuna, skjálfandi af kulda, þegar litli stubburinn minn skoraði fyrsta markið sitt í alvöru leik. Hann var í skýjunum – og ekki skemmdi það fyrir að þeir unnu leikinn 3-0 (sem er mjög sjaldgæft).

Hafandi allan laugardaginn framundan – þökk sé matarinnkaupum föstudagsins og ókristilegum tíma fótboltans – ákvað ég að gefa krökkunum allan minn tíma (tjah, fyrir utan 10 mínútur stöku sinnum til að skipta í þvottavélinni). Við Iðunn lituðum og spjölluðum og Árni æfði sig í lestri á íslensku. Við Iðunn fórum líka í “hlaupa-hjóla túr” þar sem Iðunn hjólaði eins hratt og hún gat og skríkti yfir blásandi stórhvelinu sem reyndi að hlaupa með henni.

 

Þegar börnin nenntu ekki leika við mig lengur ákváðum við Þórir að byrja á verkefni vetrarins: Barbíhúsi handa Iðunni. Ég var búin að eyða nokkrum kvöldum í að hanna húsið í Google-sketch forritinu og við vorum búin að kaupa allt efni, þ.a. nú var komið að því að hefjast handa. Vel dúðuð settum við allt upp í bílskúrnum (sem var tekinn í gegn um síðustu helgi) og sneiddum niður spýtur í grindina að húsinu. Í gær boruðum við svo göt á vel útpælda staði og límdum saman með pinnum, þ.a. úr urðu 6 stykki 30x61 cm rammar. Næst á dagskrá er að Þórir kaupi það sem þarf í raflagnir hússins... Nánar um þetta verkefni þegar allt er tilbúið – en þá verður kennslublogg í boði TimmerTeam Örnu og Þóris :D

 

Alexandra kíkti til okkar í heimsókn á laugardaginn og var hjá okkur yfir helgina. Þórir fékk húsið síðan útaf fyrir sig á meðan ég fór með AuPairunum mínum (Alexöndru og Valda) í bíó á laugardaginn. Eins og gengur þegar Alex er í heimsókn var mikið kjaftað og mikið slúðrað, þ.a. ekki leiddist mér þessa helgina.

 

Næsta föstudag ætla ég í búðina eftir vinnu – og stefna á aðra svona skemmtilega helgi með krökkunum.

 

Orðafjöldi: 380


Dansandi börn

Árni og Iðunn hafa mjög gaman af því að dansa. Því miður hef ég ekki náð að taka upp danssporin upp á síðkastið þar sem þau verða mjög meðvituð um myndavélina og fara að haga sér eins og bjánar, en ég náði nokkrum skemmtilegum myndböndum af Iðunni þegar hún var c.a. 18 mánaða.

 

 

 

Ég verð að viðurkenna að ég er veik fyrir raunveruleikaþáttum, og þá sérstaklega hæfileikaþáttum. Ég hef t.d. verið að æfa mig í hollenskuskilningi (ehehemm) með því að horfa á hollenska “So You Think You Can Dance”. Um daginn ákvað ég að taka það upp (í stað þess að vaka frameftir eins og venjulega) og átti því nýjasta þáttinn í minninu á sjónvarpinu. Daginn eftir langaði mig að horfa á þáttinn og sannfærði börnin að horfa með mér. Eftir fyrsta dansatriðið var Árni farinn upp að skipta um föt og kom niður í svörtu “skinny-jeans” buxunum sínum, hvítri smóking-skyrtu með kragann upp og hneppt frá langt niður á bringu – af því svoleiðis eru dansarar...

 

Ég þarf líklega ekki að taka það fram að ég sá dansatriði keppendanna í túlkun barnanna minna frekar en af skjánum...

 

Næst þegar þau horfa á SYTYCD verð ég með símann minn tilbúinn á “video” stillingu.

 

Orðafjöldi: 202


Námskeið í vísindaskrifum... og blogg?

Undanfarnar vikur (og eiginlega mánuði) hef ég setið námskeið í vísindaskrifum. Það kom sér einstaklega vel þar sem síðastliðinn mánudag sendi ég fyrstu fræðigreinina mína inn til tímarits (krossa putta takk!) en fyrsta útgáfa þeirrar greinar var rituð í júní 2009!!! Ég ætla að vona að þetta verði ekki meðaltalið hjá mér... Nóg um það og aftur að námskeiðinu: Einn kennaranna var stórmerkilegur Ameríkani, sérfræðingur í sálfræði (eða eitthvað svoleiðis) og einstaklega pródúktívur greinahöfundur. Hann hefur yndi af því að senda álitsgreinar og hakka í sig rit annarra... Þessi stórmerkilegi Ameríkani reyndist líka stórskemmtilegur fyrirlesari og fullur af fróðleik um aðferðir til að losa sig við hið ímyndaða "writers block". Ein þessara aðferða greip mig og hefur verið að lulla í hausnum á mér síðan í sumar: Skrifa að minnsta kosti 200 orð á hverjum degi - og helst að byrja daginn á þessum 200 orðum. Hann átti líka stórskemmtileg komment, t.d. "Date your sentences - don't get married to them". 

Eftir þetta blessaða námskeið hélt ég áfram að fínpússa mínar greinar og skrifa tillögu að næstu rannsókn. Hvort ég hafi náð 200 orðum á dag veit ég ekki, en ég skrifaði þó eitthvað eða editeraði á hverjum degi. Nú er svo komið að fyrri greinin er innsend (Grin vúhú!!) og seinni er í innri yfirferð hjá Evrópsku Lyfjastofnuninni (fékk stórmerkilegan Austurríkismann til að vinna hana með mér - Cool) þ.a. við tekur lestur - og mikill lestur þar að auki. Hvernig fer ég þá að því að skrifa mín 200 orð á dag?

Jú, ég á þetta blogg - en þarf maður ekki alltaf að vera svo sniðugur þegar maður bloggar?!? Þvílíka pressan að fólk lesi þessa þvælu og maður þarf endalaust að passa sig á að vera "politically correct" og skrifa rétt og ekki sletta á útlensku...

Kunningjakona mín fluttist fyrir tæpu ári síðan til Japan - fékk æðislegt tækifæri í gegnum okkar gamla vinnustað. Ég stend mig að því að fylgjast með henni á hennar bloggi - öfundast soldið og bera okkur saman. Við höfum báðar barist við fitupúkann árum saman (ég með nokkuð minni árangri en hún Blush), við höfum sömu menntun, börn á svipuðum aldri og báðar rifum við fjölskylduna upp með rótum til að flytjast til útlanda (O.K. ég er bara í Hollandi - en það er samt dýrt að fara til Íslands). Þessa dagana er hún mikið að velta fyrir sér til hvers hún sé að blogga - les fólk þetta yfir höfuð? Á hún ekki bara að sleppa þessu? ... Sem betur fer ákvað hún að halda áfram og bara hugsa um sjálfa sig, manninn sinn og börn við sín skrif - þetta eru minningarnar þeirra um dvölina í Japan, uppvöst barnanna og dýrmætt fyrir þau í framtíðinni að geta lesið þetta.

 

Ég er að spá í að taka mér hana til fyrirmyndar - í bloggi sem öðru - og halda þessu bloggi sem dagbók fyrir okkur. Engin skrif um pólitík, kreppu eða komment á fréttir! Bara dagbók fjölskyldunnar við Stjörnuepli á Háasandi - og ná þannig mínum 200 orðum á dag!

 

Þessi færsla er 510 orð.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband