Námskeið í vísindaskrifum... og blogg?

Undanfarnar vikur (og eiginlega mánuði) hef ég setið námskeið í vísindaskrifum. Það kom sér einstaklega vel þar sem síðastliðinn mánudag sendi ég fyrstu fræðigreinina mína inn til tímarits (krossa putta takk!) en fyrsta útgáfa þeirrar greinar var rituð í júní 2009!!! Ég ætla að vona að þetta verði ekki meðaltalið hjá mér... Nóg um það og aftur að námskeiðinu: Einn kennaranna var stórmerkilegur Ameríkani, sérfræðingur í sálfræði (eða eitthvað svoleiðis) og einstaklega pródúktívur greinahöfundur. Hann hefur yndi af því að senda álitsgreinar og hakka í sig rit annarra... Þessi stórmerkilegi Ameríkani reyndist líka stórskemmtilegur fyrirlesari og fullur af fróðleik um aðferðir til að losa sig við hið ímyndaða "writers block". Ein þessara aðferða greip mig og hefur verið að lulla í hausnum á mér síðan í sumar: Skrifa að minnsta kosti 200 orð á hverjum degi - og helst að byrja daginn á þessum 200 orðum. Hann átti líka stórskemmtileg komment, t.d. "Date your sentences - don't get married to them". 

Eftir þetta blessaða námskeið hélt ég áfram að fínpússa mínar greinar og skrifa tillögu að næstu rannsókn. Hvort ég hafi náð 200 orðum á dag veit ég ekki, en ég skrifaði þó eitthvað eða editeraði á hverjum degi. Nú er svo komið að fyrri greinin er innsend (Grin vúhú!!) og seinni er í innri yfirferð hjá Evrópsku Lyfjastofnuninni (fékk stórmerkilegan Austurríkismann til að vinna hana með mér - Cool) þ.a. við tekur lestur - og mikill lestur þar að auki. Hvernig fer ég þá að því að skrifa mín 200 orð á dag?

Jú, ég á þetta blogg - en þarf maður ekki alltaf að vera svo sniðugur þegar maður bloggar?!? Þvílíka pressan að fólk lesi þessa þvælu og maður þarf endalaust að passa sig á að vera "politically correct" og skrifa rétt og ekki sletta á útlensku...

Kunningjakona mín fluttist fyrir tæpu ári síðan til Japan - fékk æðislegt tækifæri í gegnum okkar gamla vinnustað. Ég stend mig að því að fylgjast með henni á hennar bloggi - öfundast soldið og bera okkur saman. Við höfum báðar barist við fitupúkann árum saman (ég með nokkuð minni árangri en hún Blush), við höfum sömu menntun, börn á svipuðum aldri og báðar rifum við fjölskylduna upp með rótum til að flytjast til útlanda (O.K. ég er bara í Hollandi - en það er samt dýrt að fara til Íslands). Þessa dagana er hún mikið að velta fyrir sér til hvers hún sé að blogga - les fólk þetta yfir höfuð? Á hún ekki bara að sleppa þessu? ... Sem betur fer ákvað hún að halda áfram og bara hugsa um sjálfa sig, manninn sinn og börn við sín skrif - þetta eru minningarnar þeirra um dvölina í Japan, uppvöst barnanna og dýrmætt fyrir þau í framtíðinni að geta lesið þetta.

 

Ég er að spá í að taka mér hana til fyrirmyndar - í bloggi sem öðru - og halda þessu bloggi sem dagbók fyrir okkur. Engin skrif um pólitík, kreppu eða komment á fréttir! Bara dagbók fjölskyldunnar við Stjörnuepli á Háasandi - og ná þannig mínum 200 orðum á dag!

 

Þessi færsla er 510 orð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband