Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Ég læt ekki predikara vaða yfir mig!

Af einskærri forvitni rambaði ég inn á bloggsíðu guðfræðings nokkurs, er þykir siðavandur maður. Siðvendni er að mínu mati túlkunaratriði, það sem sumum finnst siðvendni, finnst öðrum hræsni og þriðja hópnum ekki nógu púrítanaískt, en það er útfyrir efnið. Guðfræðingur þessi bloggar um skoðanir sínar á fóstureyðingum og fær almennan halelujah-kór karlmanna sem telja sig siðavanda í athugasemdakerfi sitt.

Í megindráttum eru guðfræðingurinn og halelújah-kórinn alfarið á móti fóstureyðingum, sama hver ástæða þeirra er. Að vísu vogar einn kommentarinn sér að hafa þá skoðun að betra sé að hafa þær löglegar og aðgengilegar á stofum þar sem fagmenn (þ.e. læknar) kunna til verka, heldur en að stúlkukindurnar neyðist inn í bakherbergi skottulækna og kerlinga. Þessi góði maður er umsvifalaust skotinn niður af guðfræðingi og halelújah-kór fyrir þessa skoðun sína.

Sjálfstæðis-femínistanum í mér rann blóðið til skyldunnar að standa upp og mótmæla. Hlutirnir eru ekki alltaf svona einfaldir. Því miður get ég ekki haft athugasemd mína eftir orðrétt, þar sem guðfræðingurinn var á öndverðri skoðun og eyddi henni með þeirri útskýringu að hún væri "nafnlaus" og nafnlausum athugasemdum væri eytt umsvifalaust. Hinn nafnlausi "Predikari" fær hins vegar sínar tvær færslur óáreittar, þar sem hann lofar guðfræðinginn fyrir skoðanir sínar. Ég mun reyna að rifja upp athugasemd mína eftir bestu getu og dæmi hver sem vill:

Mikið vildi ég að fólk hætti að líta á málin svona svart og hvítt. Auðvitað er áhyggjuefni hinn mikli fjöldi fóstureyðinga sem framkvæmdar eru á ári. Vissulega eru til ungar stúlkur (og piltar) sem líta á fóstureyðingu sem hverja aðra getnaðarvörn og er það hryggilegt. Hins vegar eru alltaf tilvik sem réttlæta aðgengi kvenna að löglegum fóstureyðingarstofum.
Hvað með fórnarlömb nauðgana þar sem barn kemur undir? Hvað með foreldra sem standa frammi fyrir því að barnið þeirra er svo veikt að það lifir ekki út meðgönguna eða fæðinguna? Ég held það hljóti að vera hræðileg tilfinning að ganga fulla meðgöngu og vita það í 20+ vikur að barnið muni aldrei lifa.
Ég efast um að ég muni nokkurn tíman velja að fara í fóstureyðingu og ég vona að þær aðstæður komi aldrei upp að ég þurfi að hugleiða valkostinn. Hins vegar vil ég ekki standa í vegi fyrir þeim mannréttindum kynsystra minna að hafa val.

Hana nú! Kommenti hver sem vill - ekkert verður fjarlægt nema það komi efni pistilsins ekki við eða sé argasta skítkast.

Ég vil líka taka það fram að þessa dagana er ég gengin rúmlega 34 vikur með mitt annað barn og get því rétt ímyndað mér vanlíðan móður sem þarf að horfast í augu við ókunnuga og svara spurningum um settan dag og kyn - ef hún veit það að barnið mun ekki lifa. Trúið mér; ótrúlegasta fólk telur sig hafa rétt á því að spyrja nærgöngulla spurninga bara af því að maður er með bumbuna út í loftið. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband