Helgin sem var að líða

Alexandra kom aftur í heimsókn til okkar fyrir helgi og var fram á sunnudagskvöld. Eins og venjulega var því fjör hjá okkur, þó nýjabrumið sé farið af heimsóknunum og við erum ekki lengur í “gestgjafa-gírnum” þegar hún kemur. Alex og Valdi komu með krakkana í bæinn á föstudaginn og hittu mig eftir vinnu. Við tókum ágætis rölt á Vismarkt og keyptum grænmeti, ávexti, krydd og hnetur. Krakkarnir virðast hafa verið með sparibrosið því sá sem við keyptum hneturnar af gaf Árna tyrkneskt nammi (sem hann deildi með Iðunni), ávaxtasalinn gaf þeim mandarínur og grænmetis/ávaxtasalinn gaf þeim banana. Þau voru ansi ánægð með ferðina – og skopparaboltana sem Alex gaf þeim (móður þeirra til ama).

Um kvöldið bökuðum við pizzur a’la Arna og gerðum tilraunir með hvítlaukspizzugerð – sem varð eiginlega hvítlauks-kex... Svo skrapp ég í Lidl rétt fyrir lokun og kláraði matarinnkaup vikunnar.

Á laugardaginn fórum við með Árna að keppa í Veendam og þar sem Valdi og Alex fóru ekki á djamm á föstudeginum (surprice!) kom Alex með. Restinni af laugardeginum var eytt í miðbænum þar sem Þórir fékk loksins nýjan síma (þá erum við bæði búin að losa okkur við Samsung ógeðið) og krakkarnir fengu íþróttadót á McDonalds (?!?!?). Þórir, Valdi og Alex sátu lang fram á kvöld við borðstofuborðið að spila, en þar sem hausverkurinn minn er ekkert að fara ákvað ég bara að liggja upp í sófa og slaka á fyrir framan sjónvarpið.

Sunnudagurinn fór svo mestmegnis í leti og knús með krökkunum. Við reyndar náðum að smíða næstum helminginn af Barbí-húsinu handa Iðunni.

 

Ég veit; ekki skemmtilegasta blogg sem ég hef skrifað – bara að þessi andsk*** hausverkur hverfi nú á næstunni!

 

Orðafjöldi: 274


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband