Hvað ætli margir bloggarar afhausi mig núna?

Mér eru með öllu óskiljanleg viðbrögð bloggsamfélagsins við ályktun Lyfjastofnunar. Ákvörðun Lyfjastofnunar kemur mér bara nákvæmlega ekkert á óvart, enda er ég sammála henni.

Lög eru lög - það kemur skýrt fram í Lyfjalögum að póstverslun með lyf er bönnuð. Þetta er ekkert annað en póstverslun. Einu sinni vann ég sem nemi í annarri stóru keðjunni (hluti af tríóinu sem allir kenna um hátt lyfjaverð) og afgreiddi sjúkling utan af landi. Sjúklingurinn átti ekki til orð yfir hversu miklu ódýrara var að kaupa lyfin hjá okkur en hjá apótekaranum í heimabæ sínum og vildi fá að senda til okkar lyfseðlana og fá lyfin í pósti. (Hmm, Svíþjóð - Reykjavík, hver er munurinn??) Ég ræddi þetta við lyfsalann og hann sagðist gjarnan vilja aðstoða manninn en póstverslun er bönnuð. Hann hefði getað misst lyfsöluleyfið sitt hefði hann gert það sem sjúklingurinn vildi.

Þá spyr einhver: "Hvað með heimsendingar apótekanna?" Heimsendingar eru leyfilegar á verslunarsvæði apóteksins (skilgreiningaratriði) og þá skal starfsmaður apóteksins sjá um afhendingu lyfjanna. Vakni spurningar um lyfið eða afgreiðslu lyfsins skal starfsmaðurinn geta haft beint samband við lyfjafræðinginn sem afgreiddi lyfið og annað hvort miðla upplýsingunum eða gefa sjúklingi samband við lyfjafræðinginn. Starfsmaður Póstsins getur það ekki og það er svolítið erfitt að ætla að ná í sænska lyfjafræðinginn í síma.

"En það er læknir sem er að senda þetta! Er ekki hægt að tala bara við hann ef spurningar vakna?" Jú, ef hann hefur starfsleyfi sem heildsali/innflytjandi lyfja eða til lyfsölu þá ber honum skylda til að svara spurningum. Í þessu tilfelli er það ekki svo. Þar að auki vil ég benda á að lyfjafræði er 5 ára háskólanám þar sem farið er djúpt ofaní saumana á hvernig lyf virka í líkamanum, eðli milliverkana og svo margt annað sem tengist lyfjum og rétt er snert á í læknanáminu. Sá aðili sem best er til þess fallinn að svara spurningum um lyf er yfirleitt lyfjafræðingur, en læknar sem eru sérfræðingar á sviði lyfsins (hjartalæknir vegna hjartalyfja, gigtarlæknir vegna bólgulyfja o.s.frv.) vita yfirleitt sínu viti. Ég fer ekki að spyrja bæklunarlækni um atriði sem tengjast hormónalyfinu mínu.

Ég get alveg verið sammála því að lyf keypt í Svíþjóð ættu ekki að vera verri en lyf keypt á Íslandi. Ég hef töluverð samskipti við sænsku Lyfjastofnunina í mínu starfi og veit að þar starfa góðir sérfræðingar með fagmennsku að leiðarljósi. Ég er hins vegar ekki viss um að ég hefði góða samvisku ef ég starfaði í sænsku apóteki og afgreiddi mann (hvort sem hann er læknir eða ekki) vitandi það að hann hafi engin persónuleg samskipti við sjúklinginn sem skal taka lyfið og þar af leiðandi hefði ég enga tryggingu fyrir því að sjúklingurinn fái aðstoð við að skilja fylgiseðilinn eða aðrar mikilvægar leiðbeiningar sem fylgja lyfinu.

Svo má líka horfa á þetta út frá frelsi markaðsins. Sé þetta leyft er ekkert sem stoppar að einhver óprúttinn aðili noti þetta sem fordæmi og opni sína eigin heimasíðu með svipaðri þjónustu. Hann segist kaupa lyfin frá Spáni (innan EMEA og því sömu kröfur til markaðsleyfis) og sendir þau til Íslands frá Spáni. Við höfum nákvæmlega enga tryggingu fyrir því að lyfin séu ekki að koma frá Mexíkó eða bara frá einhverjum "dúdda" á e-bay. Þesskonar svik er gífurlegt vandmál í BNA, þar sem markaðurinn ræður öllu. Þesskonar svik hafa endað með dauða saklausra sjúklinga sem hugðust spara sér aurinn.

 

Hátt lyfjaverð á Íslandi er ekki einfalt mál. Markaðurinn er mjög lítill og reglur mjög strangar. Í starfi mínu hef ég rekist á það að erlendir aðilar sjá sér ekki hag í að afgreiða pantanir til Íslands og því lenda sum lyf á "bið" í apótekum (eru ófáanleg). Einnig hafa fjölmörg samheitalyf verið tekin af markaði vegna þess að sala þeirra stóð ekki undir kostnaði við viðhald markaðsleyfis og framleiðslu lyfsins.

Um daginn setti ég fram hugmynd sem lengi hefur verið í kollinum á mér. Hvernig er best að ná niður lyfjaverði? 


mbl.is Lyfjastofnun telur vefsíðuna minlyf.net vera ólöglega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svar við spurningu í fyrirsögn:

Einn. 

Már Högnason (IP-tala skráð) 13.7.2007 kl. 16:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband