"Á morgun klukkan ellefu!"

Mágkona mín var í heimsókn á föstudagskvöld þar sem við Nex buðum Skagfirðingunum hennar í hamborgara á la Nex (mmm, nú verð ég svöng aftur). Stubburinn sat með henni úti á "svölum" (við búum á jarðhæð) og var á fullorðinslegu spjalli með frænku sinni. Ég sat inni í stofu og hleraði samtalið:

Frænka: "En hvenær ætlar litla systir þín að fæðast?"
Stubbur: "Á morgun klukkan ellefu!"
Frænka: "Strax á morgun?"
Stubbur: "Já, ég fer með mömmu til læknisins að sækja litlu systur."

Ég er búin að segja nokkrum fjölskyldumeðlimum þessa sögu yfir helgina og varð hugsað til þess að ég er ekki nógu dugleg að punkta niður gullkorn af munni Stubbsins. Ég læt því fljóta með nokkra gullmola sem fallið hafa vegna væntanlegrar fjölgunar í fjölskyldunni. (Einnig vegna frændans sem kom í heiminn í nóvember s.l.)


Skilgreiningar:
Á morgun: Einhverntíman næstu daga að morgundeginum undanskildum.
Í gær: Einhverntíman síðustu daga að gærdeginum undanskildum.
Á eftir þegar ég er búin að sofa: Á morgun.
Áðan: Í gær eða fyrr í dag.

Um ófæddan frændann: "Hann ætlar að verða fótboltastrákur eins og ég og hann á að vera í marki!"

Stubburinn hitti leikskólafélaga sinn úti á róluvelli og fór að spjalla við foreldrana:
Foreldri skólafélagans: "Áttu einhver systkini?"
Stubbur: "Já, ég á bróður."
Foreldri skólafélagans: "Hvað heitir bróðir þinn?"
Stubbur: "Axel." (Það er litli frændinn)
Foreldri skólafélagans: "Hvað er hann gamall?"
Stubbur: "Átján! " (Frændinn var 7 mánaða þegar þetta samtal átti sér stað.)
Foreldri skólafélagans: "Áttu fleiri systkini?"
Stubbur: "Já, ég á systur."
Foreldri skólafélagans: "Hvað er hún gömul?"
Stubbur: "Fimm " (Systirin var ófædd.)

Að segja ömmu sinni og afa að von sé á litlu systkini:
"Ég ætla að verða stóri bróðir!"
Amma (hissa): "í alvöru? Er mamma með lítið barn í maganum?"
Stubbur: "Já, litla systur!" (Viti menn, 14 vikum síðar sýndi sónarinn stelpuskott.)

Mamma: "Hvort viltu heldur, systur eða bróður?" (Spurt áður en kynið var ljóst)
Stubbur: "Systur!"
Mamma: "En þú veist að systir er stelpa og bróðir er strákur."
Stubbur: "Já, en þetta er stelpa og stelpur geta líka spilað fótbolta!" (Sko minn!)

Eftir að hafa farið með í mæðraskoðun og fengið að hlusta á hjartsláttinn hjá litlu:
"Af hverju sótti ljósmóðirin ekki litlu systur?"

Á biðstofu læknis:
Stubbur: "Mamma, erum við að fara til læknisins núna?"
Mamma: "Já."
Stubbur:  "Ætlar læknirinn þá að sækja litlu systur í rassinn þinn?" (Ekki beint þægilegasta spurningin að fá á yfirfullri biðstofu)

"Æi mamma, förum bara núna til læknisins að sækja litlu systur!" (Svolítið óþolinmóður) 

 

Það verður forvitnilegt að sjá hvort sú stutta fæðist klukkan ellefu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Garún

Jæjja það styttist í þetta.  En þú verður að kenna hr. Nex á þetta svo hann geti bloggað um leið og stelpan fæðist. 

Garún, 8.8.2007 kl. 11:03

2 Smámynd: Garún

Já ég ætlaði líka að segja hvað þessi börn eru dásamleg og hvað dettur útúr þeim.  Litli guttinn sem ég þekki var nýbyrjaður í skólanum og var að læra reikning.  Hann kom til mín og spurði "spurðu mig Garún hvað tveir plús tveir eru!".  Ok sagði ég og spurði hann.  Svarið kom strax "fjórir".  Hann ætlaði að ganga í burtu ánægður með sjálfan sig, þegar ég kvikindið spurði hann "En Gunnar, hvað eru tveir plús þrír?"  Hann horfði á mig fúll og svaraði "alla veganna ekki fjórir".  Sagði hann og gekk í burtu.  Þarna lærði ég að you dont mess with Gunnar doing math.

Garún, 8.8.2007 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband