Tilraunastarfsemi

Þeir sem þekkja mig vita að ég er ekki manna viljugust til tilrauna. Ég held mig yfirleitt við sömu klippinguna árum saman og eldamennska er eftir uppskriftum - með mæliskeiðum og öllu.

Ég á móðursystur sem er hárgreiðslumeistari, m.a.s. mjög flinkur hárgreiðslumeistari. Miklar breytingar á hárstíl mínum hafa einkum verið henni að þakka - eða kenna, eftir því hvernig á það er litið. Þegar ég var 11 ára og frænka mín í hárgreiðslunámi fékk hún mig lánaða til að æfa sig. Ég kom heim með permanent! Ég var ellefu ára gleraugnaglámur með lambakrullur. Ég verð að taka það fram að yfirleitt er hárið á mér svo slétt að teygjur renna úr því og týnast.
Sjö árum síðar var ég á leið í útskriftarferð með MR. Þar sem hárið á mér er svo slétt og gróft verður það óviðráðanlega flatt í röku loftslagi (s.s. á sólarströnd). Minnug þess hversu flott ég var þegar ég var ellefu ákvað ég að fá mér permanent fyrir ferðina. Þá var frænka mín flutt 290km í burtu og því ekki minn reglulegi klippari. Tæpum mánuði fyrir brottför lét ég verða af því að skella rúllunum í og labbaði sæl með mínar krullur út af hárgreiðslustofunni. Einhverra hluta vegna entist permanentið ekki lengi og á öllum myndum frá Benidorm eru bara smá lufsuliðir í endunum á axlarsíðu hárinu - ekki smart þegar maður er átján!

Permanentið þegar ég var ellefu var fyrsta skiptið sem ég fékk að taka þátt í vali á klippingu. Móðir mín telst vera smekkmanneskja og jafnvel íhaldssamari en ég. Samt eru flestar myndir af mér frá aldrinum 4-10 ára ömurlegar - sítt að aftan og apecut! Mamma tók völdin aftur í smá tíma eftir permóið og ég fékk að hafa mitt axlarsíða ljósa hár í gaggó. Í lestrarfríinu fyrir samræmdu prófin skrapp ég 290km norður og heimsótti frænku mína í 5 daga. Fínt næði í sjávarplássinu til lesturs og það er alltaf gaman að spjalla við móðursystur mínar. Þegar ég steig úr vélinni á Reykjarvíkurflugvelli þekkti móðir mín mig ekki: Ég var í lopapeysu (sveitastemmningin), stuttu svörtu pilsi og Dr.Martin's skóm (hey - it's the nineties) og axlasíða ljósa hárið orðið knallstutt og kastaníubrúnt/rautt. Mér fannst ég flottust! Kastaníubrúni liturinn reyndist kostnaðarsamur í viðhaldi, en hár sem týnir teygjum og permanenti vill líka týna lit. Ég gafst því upp á dökka hárinu og safnaði aftur í - vitimenn - axlarsítt ljóst hár.

Það var ekki fyrr en sumarið eftir stúdentspróf - og ég á leið til vinnu í útlöndum - að ég gerði breytingu sem hefur haldið sér allt til dagsins í dag. Ég lét klippa mig knallstutt og aflitað með hettustrípum. Ef þið bæðuð einhvern um að lýsa mér fyrir ykkur væri lýsingin örugglega á þessa leið: Nokkuð yfir kjörþyngd, meðalhæð, stór augu og ljóst stutt hár. Jæja, þannig er ég ekki lengur ...

... Ég er komin með svart hár! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Garún

Það er alltaf gott að breyta til....Hvernig heilsast börnunum tveimur?

Garún, 2.10.2007 kl. 21:47

2 Smámynd: Nexa

Börnin hafa það fínt, takk

Iðunn Birna er alger vargur og lætur heyra í sér, ágætt að hafa smá skap. Ég held reyndar að maginn sé eitthvað að stríða henni og ætla að prófa að gefa henni dropa.

Árni Björn er alltaf jafn góður við systur sína og vill helst taka nýjar myndir með í leikskólann á hverjum degi. Hann er líka búinn að átta sig á því að hann þurfi að halda herberginu sínu snyrtilegu og gengur frá dótinu (svona eins og þriggja ára barn getur) þegar hann hættir að leika. Það tók reyndar á og töluvert af dóti hvarf inn í efriskáp áður en boðskapurinn náði til hans.

Ég blogga vonandi fréttir af börnunum fljótlega og mun örugglega blogga oftar þegar svefnrútínan hjá prinsessunni er komin í fast horf. 

Nexa, 2.10.2007 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband