3.10.2007 | 20:06
Ekki er öll vitleysan eins...
... og hugmyndin komin frá skrifstofustjóra Heilbrigðisráðuneytisins. Lyfjasjálfsali???
Talandi um að gefa afslátt af reglunum.
Lyf eru ekki hver annar varningur! Almenningur gerir sér takmarkaða grein fyrir verkun lyfja og þarf í mörgum tilfellum leiðsögn starfsmanna apótekanna. Ég legg sjálf faglegan metnað í að upplýsa viðskiptavini um magntakmarkanir inntöku og veita aðrar upplýsingar sem viðskiptavinurinn óskar eftir.
Ég man vel eftir léttu rifrildi sem ég átti við vel meinandi konu í flugvél: Við vorum á leið á sólarströnd með Stubbinn 18 mánaða gamlan. Hann var búinn að vera með eyrnabólgu meira og minna í hálft ár og því vildi HNE-læknirinn hans setja rör í eyrun á honum fyrir flugferðina.
Ég vil taka það fram áður en lengra er haldið að Stubbnum er annt um sitt frelsi og vill ekki láta tjóðra sig niður í belti eða fang foreldra sinna. Eins og flestir vita er nauðsynlegt að börn sitji kyrr í sætum sínum í flugtaki og lendingu, en 18 mánaða fjörkálfur skilur slíkt ekki. Stubburinn vildi til afa síns í næstu röð og varð alveg snarvitlaus þegar hann fann að hann var fastur í belti áfast við móður sína.
Eitthvað fór grátur barnsins í taugarnar á konu sem sat örfáum röðum framar í vélinni (skiljanlega, lungu drengsins eru sterk). Allt í einu stóð konan við hliðina á sætinu mínu og otaði að mér glasi af Audax (verkjastillandi eyrnadropar sem ekki eru lengur á markaði);
Konan: Viltu ekki gefa barninu þetta?
Ég: Nei, takk. Þetta er bara frekjukast. Þar að auki má hann ekki fá dropa í eyrun núna, hann var að fá rör.
Konan: Þetta eru voða fínir dropar til að setja í nefið. Þá verður honum ekki svona illt í eyrunum.
Ég: Nei, nei. Þetta eru eyrnadropar og hafa áhrif á hlustarverk. Þar að auki var hann að fá rör, þannig að það getur ekki verið að honum sé illt í eyrunum.
Konan: Lyfjafræðingurinn í apótekinu sagði að við ættum að setja þetta í nefið á stúlkunni okkar fyrir flugtak og lendingu. Viltu ekki fá af þessu fyrir drenginn? (Hún hefur örugglega verið að kaupa nefdropa líka, því það vita allir lyfjafræðingar að Audax á ekki að fara í nef.)
Ég: Ég er lyfjafræðingur og þetta eru eyrnadropar!
Konan: Við settum þetta samt í nefið á stúlkunni okkar og það virkaði fínt! Strunsaði burt í fússi.
Það getur vel verið að ég hafi verið farin að sýna óþolinmæði mína, en guð minn góður, hvenær náði hún því ekki að ég vissi nákvæmlega hvað væri að mínu barni og það var pjúra frekja - ekki eyrnaverkur. Stubburinn þagnaði loks þegar sætisbeltaljósið var slokknað og níu ára gömul frænkan fór með hann í göngutúr um vélina. Ég veit ekki hvort skapaði okkur meiri óvinsældir meðal flugfreyjanna; öskrin í flugtaki eða sífelldur göngutúr á milli foreldranna og langafans tuttugu röðum aftar. Stubburinn fékk að vera í fangi afa síns í lendingu og horfði dolfallinn á ljósin á jörðinni. Flugfreyjurnar voru ekkert að skipa afanum að draga fyrir gluggann - betra að brjóta aðeins reglurnar en að fá þessi öskur aftur.
Ég ætla að vona að Prinsessan verði aðeins viðráðanlegri þegar við förum í fyrstu utanlandsferðina hennar - hún er með enn sterkari lungu en stóri bróðir.
Mætti selja lausasölulyf í sjálfsala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér finnst að öll ungabörn eigi að vera meðlimir í íslensku óperunni.
Garún, 3.10.2007 kl. 21:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.