“Ætlar þú þá ekki að fá þér kvöldmat?!?”

Hollendingar er óskaplega vanafastir og eiga erfitt með að skilja venjur annarra. Hér er venjan að allir taka samlokur með sér í vinnuna (bara með einu áleggi – skinka og ostur á sömu samlokuna er óþarfi og dýrt) og fara svo í mötuneytið með sínar samlokur og kaupa sér súpu og mjólk. Ég er komin með alveg upp í kok á öllu þessu brauði og er löngu hætt að kaupa súpuna (sem er yfirleitt of sölt), þ.a. ég minntist á það við mína yfirmenn hvort ég mætti ekki kaupa mér örbylgjuofn (fyrir mína peninga) og setja inn í kaffihornið okkar. Svarið var þvert nei – það er ekki pláss fyrir svoleiðis vitleysu! Ég má heldur ekki hafa örbylgjuofn á skrifstofunni minni vegna eldhættu. Ég reyndi að útskýra það að ég hef ekki alveg efni á því að kaupa mér 5 evru mat á hverjum degi og að brauð sé ekki alveg það sem mig langar í öll hádegi, þ.a. ég vildi gjarnan geta tekið með mér afganga kvöldsins áður og hitað mér í hádeginu (ekki að það komi þeim við hvað ég ét). Viðmótið sem ég fékk við því var “getur þú bara ekki étið brauð eins og allir aðrir?”.

Ég gafst upp á þessu stríði, enda ekki gott að hafa nornina upp á móti sér út af svona smámálum. Ég fór því í hverju hádegi og skimaði mötuneytið eftir einhverju hollu, en endaði yfirleitt með því að kaupa mér grillaða samloku eða rándýrt pasta. Jú jú, það er víst salatbar hér, en allt grænmetið er annað hvort syndandi í ediki (ojbarasta) eða löðrandi í majonesi. Ég byrjaði því að fitna aftur og fór að taka eftir bjúg í fyrsta skipti á ævinni – ég fékk ekki einu sinni bjúg á meðgöngu!

Eitthvert kvöldið í síðustu viku sat ég við kvöldverðarborðið með Þóri og Valda og minntist á þetta stríð um hádegisverðinn. Þórir viðurkenndi það að hann væri nú sjálfur orðinn soldið leiður á brauði endalaust og við fórum að spá í hvað við gætum gert. Talið barst að því þegar við vorum á danska kúrnum um árið (10kg fuku á 10 vikum!!) og hversu vel okkur leið á þeim tíma. Það var því ákveðið að við Valdi ættum að raða saman 12 matseðlum með fjölbreyttu matarræði og gera ráð fyrir því að hafa alltaf salat með kvöldmatnum (Ég geri undirsíðu með því þegar allt er tilbúið). Á meðan við erum að elda kvöldmatinn skerum við aukalega grænmeti í nesti fyrir okkur Þóri og setjum í box. Við ætlum líka að hætta að kaupa sósur og gerum nú allar sósur sjálf með jógúrti, léttmajonesi og allskonar kryddi. Sterkt plan Grin

Í gær var fyrsti dagurinn minn með “nýja nestið”. Ég hafði smurt mér eina samloku með kæfu og var með salat og gulrót með, ásamt dýrindis hvítlaukssósu. Þegar ég var búin að fá mér nokkra munnbita tók ég eftir því að einum vinnufélaga mínum var starsýnt á boxið mitt. Eftir smá stund kom spurningin: “Eet je dan geen avondseten?”

Orðafjöldi: 496


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband