Mark!!

Það var svo erfitt að koma sér aftur í vinnu eftir svona fína helgi – sérstaklega vitandi af Þóri heima með krökkunum. Nýja verkefnið hans byrjar á morgun, þ.a. hann var í fríi á föstudaginn og í dag. Ég slapp því við búðarferðina á laugardaginn af því hann sá um það á meðan krakkarnir voru í skólanum – þvílíkur lúxus!

 

Árni fór að keppa á laugardaginn (á sama ókristilega tímanum og venjulega) og stóð ég við hliðarlínuna, skjálfandi af kulda, þegar litli stubburinn minn skoraði fyrsta markið sitt í alvöru leik. Hann var í skýjunum – og ekki skemmdi það fyrir að þeir unnu leikinn 3-0 (sem er mjög sjaldgæft).

Hafandi allan laugardaginn framundan – þökk sé matarinnkaupum föstudagsins og ókristilegum tíma fótboltans – ákvað ég að gefa krökkunum allan minn tíma (tjah, fyrir utan 10 mínútur stöku sinnum til að skipta í þvottavélinni). Við Iðunn lituðum og spjölluðum og Árni æfði sig í lestri á íslensku. Við Iðunn fórum líka í “hlaupa-hjóla túr” þar sem Iðunn hjólaði eins hratt og hún gat og skríkti yfir blásandi stórhvelinu sem reyndi að hlaupa með henni.

 

Þegar börnin nenntu ekki leika við mig lengur ákváðum við Þórir að byrja á verkefni vetrarins: Barbíhúsi handa Iðunni. Ég var búin að eyða nokkrum kvöldum í að hanna húsið í Google-sketch forritinu og við vorum búin að kaupa allt efni, þ.a. nú var komið að því að hefjast handa. Vel dúðuð settum við allt upp í bílskúrnum (sem var tekinn í gegn um síðustu helgi) og sneiddum niður spýtur í grindina að húsinu. Í gær boruðum við svo göt á vel útpælda staði og límdum saman með pinnum, þ.a. úr urðu 6 stykki 30x61 cm rammar. Næst á dagskrá er að Þórir kaupi það sem þarf í raflagnir hússins... Nánar um þetta verkefni þegar allt er tilbúið – en þá verður kennslublogg í boði TimmerTeam Örnu og Þóris :D

 

Alexandra kíkti til okkar í heimsókn á laugardaginn og var hjá okkur yfir helgina. Þórir fékk húsið síðan útaf fyrir sig á meðan ég fór með AuPairunum mínum (Alexöndru og Valda) í bíó á laugardaginn. Eins og gengur þegar Alex er í heimsókn var mikið kjaftað og mikið slúðrað, þ.a. ekki leiddist mér þessa helgina.

 

Næsta föstudag ætla ég í búðina eftir vinnu – og stefna á aðra svona skemmtilega helgi með krökkunum.

 

Orðafjöldi: 380


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband