Vantar vitundarvakningu hjá íslensku heilbrigðisstarfsfólki

Það er ekki nema von að erfitt sé að meta tíðni aukaverkana vegna lyfja á Íslandi. Samkvæmt lyfjalögum ber heilbrigðisstarfsfólki skylda til að tilkynna öll atvik sem telja mætti að séu aukaverkanir eða milliverkanir lyfja. Því miður virðist sem heilbrigðisstarfsfólk sé ekki meðvitað um þessa skyldu og margir læknar virðast ekki vita hvernig skuli koma tilkynningum á framfæri.

Eflaust eru fleiri ríki en Ísland með svipaða laka tíðni tilkynninga, en það skekkir allverulega tölfræðina. Þegar ég var að vinna innganginn að lokaverkefninu mínu tók ég eftir því að notkunarmynstur ákveðinna lyfjaflokka er mjög mismunandi eftir löndum og gríðarlegur munur er á milli heimsálfa. (Lokaverkefnið mitt fjallaði aðallega um notkunarmynstur háþrýstingslyfja og blóðfitulyfja og breytingar á notkun eldri lyfja vegna tilkomu nýrra lyfja). Í núverandi starfi hef ég enn frekar tekið eftir þessum mun, en markaðshlutdeild lyfja getur verið mjög misjöfn milli Evrópulanda.

OK, aftur að efninu: BNF (British National Formulary) er nokkuð þykkur bæklingur í A5-broti og er gefinn út (að mig minnir) 4 sinnum á ári. Þessi bæklingur virkar svipað og Sérlyfjaskráin íslenska, þ.e. er ætluð til að aðstoða þá sem hafa heimild til að ávísa og afgreiða lyf. Ólíkt Sérlyfjaskránni er lyfjunum í BNF ekki raðað í stafrófsröð eftir sérlyfjaheiti, heldur eftir verkun og er miðað við heiti virka efnisins. BNF inniheldur einnig margvíslegar upplýsingar sem heilbrigðisstarfsfólk nýtir sér þegar lyf og skammtar eru ákveðnir, t.d. fyrir börn, við skerta nýrnastarfsemi og annað sem getur haft áhrif á virkni og/eða niðurbrot lyfja. Eintakið mitt (keypt fyrir forvitnis sakir á meðan á námi stóð) er einnig með nokkur eintök af tilkynningareyðublaði vegna gruns um aukaverkanir og/eða milliverkanir lyfja. Læknar og hjúkrunarfræðingar (í Bretlandi mega sumir hjúkrunarfræðingar ávísa ákveðnum lyfjum, dispensing nurse) geta einnig fengið fleiri eyðublöð sér að kostnaðarlausu, sem og lyfjafræðingar í apótekum.

Væri ekki ráð að hin fjársvelta Lyfjastofnun fengi fjárveitingu til að útbúa skilvirk eyðublöð og útdeila á alla starfandi lækna í landinu og í öll apótek? Væri ekki ráð að auka vitund heilbrigðisstarfsmanna um þetta mikilvæga málefni með markvissum hætti? Lyfjakynnar heildsalanna eru alltaf velkomnir með kökurnar og pennana sína. Kannski Lyfjastofnun ætti að fá fjárveitingu til að senda "tilkynninga-kynni" með kökur og eyðublöð? - Bara hugmynd. 


mbl.is Yasmin áfram á markaði í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband