9.1.2008 | 11:31
Hinn ómetanlegi dásamleiki snuðs
Prinsessan mín er skapstór lítil dama. Þessa tæpu fimm mánuði sem hún hefur glatt okkur hefur hún fengið ýmiskonar uppnefni, t.d. öskurapi, garganbolla og óperusöngkona. Langömmurnar eru alveg með það á hreinu að með þessi lungu verður hún fínasta söngkona (ef hún nær að halda lagi, sem er nokkuð meira en foreldrarnir geta). Ég verð að viðurkenna að ég var orðin svolítið þreytt á söngnum sem krafðist sífelldrar dvalar í fangi mömmunnar, hún m.a.s. svaf uppí. Þetta var það alvarlegt að ég gat varla brugðið mér af bæ án þess að hún kvartaði sáran við pabba sinn, eða hvern þann sem leit eftir henni á meðan. Lúrarnir hennar voru stuttir og hún var farin að verða geðill - það fékk enginn bros nema Stubburinn, sem er hennar uppáhalds leikfélag.
Hverju var þetta ófremdarástand að kenna? Jú, barnið harðneitaði að taka snuð! Í hver skipti sem við reyndum snuðið grét hún bara sárar og kúgaðist þar til við gáfumst upp (sem tók ekki langan tíma). Ég var farin að sjá fyrir mér vandræði þegar ég færi aftur að vinna. Hún myndi vera pirruð út í pabba sinn allan daginn (af því hann er ekki með brjóst) og síðan myndi mér ekki haldast á dagmömmum því hún væri alltaf að heimta fangið.
Á nýársdag (eftir frekar óskemmtilegt gamlárskvöld - það er ekkert gaman að sitja í gegnum fínan mat með grútsyfjað barnið öskrandi og það er heldur ekkert gaman að vera í fínum kjól og þurfa alltaf að vera að taka brjóstið út til að róa barnið) fengum við nóg. Nex tók hana í fangið, valdi snuð og stakk því upp í hana, aftur og aftur og aftur. Hún fór frá voli í grát í öskur og að lokum eftir klukkutíma þrjóskustríð feðginanna lá hún snöktandi í fanginu á honum tottandi snuðið. Síðan þá hefur snuðið verið hennar besti vinur, hún sefur í sínu rúmi, hún sefur tvo langa og einn stuttan lúr yfir daginn og drekkur á tæplega 4 tíma fresti.
Snuðið hefur breytt öskurapanum mínum í sannkallað draumabarn! Það er verst að nú þarf ég að venjast því að hún sé ekki uppí, ég hef átt í stökustu vandræðum með að sofna síðan hún fór að sofa í sínu rúmi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.