GARG!!!

Annað hvort eru ungar stúlkur í dag aldar upp við dekur og sérhlífni eða ég er bara einstaklega óheppin!

Hér í Niðurlöndum höfum við ekkert net af fólki til að redda okkur og skiptast á að gæta barnanna (skólakerfið er ekki beint byggt upp fyrir það að báðir foreldrar vinni úti) þ.a. við ákváðum að hafa AuPair - fínt mál. Ég fór sjálf sem AuPair fyrir 11 árum og ég man enn hvað var gaman að eyða deginum í að leika við krakkana og helgunum í stutt ferðalög með vinkonunum.

 Spólum síðan 10 ár og komum að því að ég þarf sjálf að fá mér AuPai:

AuPair #1: Við erum nýflutt og erum að bíða eftir að fá símalínu og netið. Nex var ekki komin með vinnu og tók að sér að hjálpa henni að aðlagast börnunum og finna rútínu. Mamma AuPairinnar hringir á hverjum degi (og stundum oft á dag) til að "spjalla" - þegar hún er búin að vera hjá okkur í 2 vikur kemur skellurinn; "Ég er með heimþrá, afi er veikur og ég á flug heim eftir 2 daga!" SAY WHAT?!?!?!

AuPair #2: Jæja, ein stelpnanna sem ég hafði talað við fyrr um haustið hafði ennþá áhuga og var komin viku eftir að hin fór. Við sömdum um að ég sæi um öll þrif, það eina sem hún þurfti að gera var að sinna börnunum og sjá um að koma Stubb í og úr skóla og fara í þroskandi leiki með Ballerínunni. Að sjálfsögðu ætluðumst við samt til að umgengnin yrði góð og eldhúsið væri hreint þegar við kæmum heim (Það er bara sjálfsagt, ekki satt??) Til að byrja með gekk mjög vel - hún var mikið niðri með mér að horfa á sjónvarpið og okkur kom vel saman. Krakkarnir dýrkuðu hana og þau dönsuðu mikið á daginn. Smám saman fór að bera á kæruleysi og leti - Prinsessan var greinilega að horfa á MTV allan daginn því hún kunni engin barnalög en gat sungið vinsæl lög af MTV eins og hálfs árs gömul og dansaði eins og Beyonce (hmm...) Æ oftar gerðist það að þegar ég kom heim þurfti ég að þrífa eldhúsið áður en ég gat byrjað að elda (henni fannst mikið vandamál að það er engin uppþvottavél á heimilinu) og ég varð vör við það að á tíma sem Prinsessan átti að hafa óskipta athygli var AuPair á netinu. Það kom líka fyrir oftar en einu sinni að hún fór út á virku kvöldi, kom seint heim og var grautþunn að passa börnin - þá munaði litlu að hún yrði send heim.

AuPair #3: Þessi er búin að vera hjá okkur í rúman mánuð. Í upphafi var talað um að ég væri með dagskipulag fyrir börnin sem hún ætti að fylgja (ég lærði sko af reynslunni með #2). Tvisvar í viku fer Prinsessan í leikskóla hálfan daginn og þá ætti AuPair að ryksuga og skúra annan daginn og þrífa klósettin hinn daginn (hálftíma verk hvort um sig - ekkert ósanngjarnt, ekki eins og hún þurfi að skipta á rúmunum eða pússa gluggana). Grundvallar-reglurnar eru: AuPair á að vera vakandi í vinnunni - ekkert sjónvarp fyrir börnin á daginn - eldhúsið á að vera hreint þegar við komum heim - dagurinn á að samanstanda af leik bæði úti og inni og AuPair á að taka þátt í leiknum og kenna þeim í leiðinni mannleg samskipti - herbergi barnanna eiga að vera snyrtileg eftir daginn (mjög auðvelt ef AuPair tekur þátt í leiknum) - osfrv (ég er ekkert ósanngjörn - að mínu mati a.m.k.)
Reynslan af #3 er: Eldhúsið er stundum ekki í lagi - stofan er yfirleitt í drasli - herbergi barnanna eru í rúst (og það þrátt fyrir að ég taki til á sunnudögum) - Prinsessan er með bleyjubruna - ryksugun og klósettþrif hafa farið fram tvisvar á þessum 5 vikum, bæði skiptin eftir að ég tók það fram að hún væri ekki búin að þessu - hún fer seint að sofa og sefur í sófanum á morgnanna á meðan Prinsessan litar húsgögn, gólf og veggi og dreifir bossaþurrkum um alla stofuna!!!
Það versta við þetta er að hún er búin að kynnast nokkrum öðrum AuPairum sem eiga að hugsa algerlega um heimilið sem þær eru á og fá ekkert aukalega borgað fyrir það - samt sér hún ekki hvað hún hefur það gott og kvartar yfir að þurfa að gera hluti sem samið var um í upphafi.

Spurning um að fara að auglýsa eftir AuPair #4...

GARG!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband