2.7.2007 | 12:43
Ég læt ekki predikara vaða yfir mig!
Af einskærri forvitni rambaði ég inn á bloggsíðu guðfræðings nokkurs, er þykir siðavandur maður. Siðvendni er að mínu mati túlkunaratriði, það sem sumum finnst siðvendni, finnst öðrum hræsni og þriðja hópnum ekki nógu púrítanaískt, en það er útfyrir efnið. Guðfræðingur þessi bloggar um skoðanir sínar á fóstureyðingum og fær almennan halelujah-kór karlmanna sem telja sig siðavanda í athugasemdakerfi sitt.
Í megindráttum eru guðfræðingurinn og halelújah-kórinn alfarið á móti fóstureyðingum, sama hver ástæða þeirra er. Að vísu vogar einn kommentarinn sér að hafa þá skoðun að betra sé að hafa þær löglegar og aðgengilegar á stofum þar sem fagmenn (þ.e. læknar) kunna til verka, heldur en að stúlkukindurnar neyðist inn í bakherbergi skottulækna og kerlinga. Þessi góði maður er umsvifalaust skotinn niður af guðfræðingi og halelújah-kór fyrir þessa skoðun sína.
Sjálfstæðis-femínistanum í mér rann blóðið til skyldunnar að standa upp og mótmæla. Hlutirnir eru ekki alltaf svona einfaldir. Því miður get ég ekki haft athugasemd mína eftir orðrétt, þar sem guðfræðingurinn var á öndverðri skoðun og eyddi henni með þeirri útskýringu að hún væri "nafnlaus" og nafnlausum athugasemdum væri eytt umsvifalaust. Hinn nafnlausi "Predikari" fær hins vegar sínar tvær færslur óáreittar, þar sem hann lofar guðfræðinginn fyrir skoðanir sínar. Ég mun reyna að rifja upp athugasemd mína eftir bestu getu og dæmi hver sem vill:
Mikið vildi ég að fólk hætti að líta á málin svona svart og hvítt. Auðvitað er áhyggjuefni hinn mikli fjöldi fóstureyðinga sem framkvæmdar eru á ári. Vissulega eru til ungar stúlkur (og piltar) sem líta á fóstureyðingu sem hverja aðra getnaðarvörn og er það hryggilegt. Hins vegar eru alltaf tilvik sem réttlæta aðgengi kvenna að löglegum fóstureyðingarstofum.
Hvað með fórnarlömb nauðgana þar sem barn kemur undir? Hvað með foreldra sem standa frammi fyrir því að barnið þeirra er svo veikt að það lifir ekki út meðgönguna eða fæðinguna? Ég held það hljóti að vera hræðileg tilfinning að ganga fulla meðgöngu og vita það í 20+ vikur að barnið muni aldrei lifa.
Ég efast um að ég muni nokkurn tíman velja að fara í fóstureyðingu og ég vona að þær aðstæður komi aldrei upp að ég þurfi að hugleiða valkostinn. Hins vegar vil ég ekki standa í vegi fyrir þeim mannréttindum kynsystra minna að hafa val.
Hana nú! Kommenti hver sem vill - ekkert verður fjarlægt nema það komi efni pistilsins ekki við eða sé argasta skítkast.
Ég vil líka taka það fram að þessa dagana er ég gengin rúmlega 34 vikur með mitt annað barn og get því rétt ímyndað mér vanlíðan móður sem þarf að horfast í augu við ókunnuga og svara spurningum um settan dag og kyn - ef hún veit það að barnið mun ekki lifa. Trúið mér; ótrúlegasta fólk telur sig hafa rétt á því að spyrja nærgöngulla spurninga bara af því að maður er með bumbuna út í loftið.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Jón Valur og hans kumpánar hafa lesið yfir sig úr biblíunni, algerlega steiktur gaur; það er ekki spurning.
DoctorE (IP-tala skráð) 2.7.2007 kl. 13:00
Við skulum halda okkur utan allra deilna um trúarbrögð. Höldum okkur bvið mannréttindi óháð stjórnmálaskoðunum og trú :
Þú segir : "vil ég ekki standa í vegi fyrir þeim mannréttindum kynsystra minna að hafa val."
Því spyr ég :
Á Íslandi eru til hegningarlög sem dómendur þurfa að fara eftir þegar refsing yfir ógeðfelldustu níðingum er ákveðin.
7 manna fjölskipaður dómur Hæstaréttar getur ekki dæmt versta illvirkja til dauða þó dómararnir svo gjarnan vildu.
14 ára stúlka getur, án mikillar yfirlegu eða mótmæla ríkisvalds, gert þetta við ófætt barn það sem hún ber undir belti. Þetta er nú alla vega umhugsunarvert fyrir okkur um virðinguna sem borin er/ekki fyrir lífi manneskjunnar og réttindum hennar.
Það er alltaf verið að tala um nauðsyn fóstureyðingar vegna getnaðar í framhaldi nauðgunar. Hver er fjöldi þeirra fóstureyðinga sem framkvæmdar hafa verið á Íslandi í framhaldi nauðgunar ? Mér hefur verið sagt að um sé að ræða engar eða sárafáar frá upphafi af þeim sökum.
Þá hafa verðandi mæður sem ekki hafa tök á húsnæði eða framfærslu geti leitað til samtaka og einstaklinga sem styrkja slíkar til þess að þurfa ekki að fara í fóstureyðingu. Sömuleiðis er þeim, ef þörf krefur, útvegað húsnæði. Sjái þær eftir fæðinguna samt ekki fyrir sér að geta haldið barninu þá er auðvitað stór hópur íslendinga sem bíður eftir að geta ættleitt.
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 2.7.2007 kl. 13:55
Sæll Predikari: Ég vil byrja á því að taka það fram að ég var ekki að vísa til þín í fyrirsögn pistilsins. Ég fagna því að fá andsvör við skoðunum mínum og þar með vettvang til rökræðna (annað en ónefndir aðilar er fjarlægja færslur sem eru ekki þeim að skapi).
Það er vissulega hægt að skoða málin og vera sammála rökum þínum. Ég er t.d. alveg sammála því að kynfræðsla barna skuli vera hagað þannig að 14 ára stúlkur hafi einfaldlega ekki þörf á því að fara í fóstureyðingar. Það er svo annað mál að skoða þarf hvert tilfelli sérstaklega.
Varðandi fóstureyðingar í kjölfar nauðgana: Í dag fá allar konur sem leita til bráðamóttöku vegna nauðgana, pillu sem í daglegu tali er kölluð "eftirá-pillan". Þessi pilla kemur í veg fyrir getnað á tvennan hátt: hún hindrar egglos og skapar óhagstæð skilyrði í legi, þ.a. frjóvgað egg bær ekki fótfestu. Sumir púrítanar vilja meina að þessi pilla sé "fóstureyðing". Því miður er það bara þannig að ekki öll fórnarlömb nauðgana leita á bráðamóttöku. Þær skammast sín og telja sökina sína. Líkurnar á því að þær greini frá því að um nauðgun hafi verið að ræða þegar þær leita sér aðstoðar vegna þungunnar eru litlar, skömmin er svo mikil.
Mín skoðun er sú að skoða þurfi hvert tilvik fyrir sig. Ég er ekkert sérstaklega hlynnt fóstureyðingum af "efnahagslegum" ástæðum, en þegar um er að ræða sjúkdóma sem stefna lífi og/eða heilsu (þ.m.t. geðheilsu) móður í voða get ég alveg skilið konur sem taka þessa ákvörðun.
Varðandi ættleiðingar innanlands: Mér skilst að löggjöfin sé þannig að ættleiðingarforeldrar séu ekki mjög réttháir gagnvart blóðforeldrum og því margir sem veigra sér við að ættleiða íslensk börn. Ég þekki það mál reyndar ekki vel, en ef einhver getur frætt okkur um hversu auðvelt/erfitt er að ættleiða börn innanlands (þá alls óskyld börn - ekki stjúpbörn, frændfólk eða þess háttar), þá endilega kommenta.
Nexa, 2.7.2007 kl. 14:41
Innlegg 'Nexu' á vefsíðu mína var í raun áhugavert. Því var ekki "eytt umsvifalaust," eins og hér stóð, heldur var athugasemdin falin, eins og Moggabloggið býður upp á, og ekki "umsvifalaust," því að fyrirvari eða skilmáli um einmitt slíka fjarlægingu nafnlausra innlegga er settur efst í vinstra horni vefsíðu minnar. Ég hef nú birt um stundarsakir þetta innlegg 'Nexu' á ný á vefsíðu minni, til þess að ég geti flutt það hingað, en það hljóðar þannig, orðrétt og óstytt:
"Mikið vildi ég óska að fólk líti ekki á þetta mál svona svakalega svart og hvítt. Vissulega er mikill fjöldi fóstureyðinga áhygjuefni og ungar stúlkur (og drengir) til sem líta á fóstureyðingu sem getnaðarvörn, en það eru alltaf tilvik sem réttlæta aðgengi að löglegum fóstureyðingum. -- Hvað með fórnarlömb nauðgana þar sem barn kemur undir? Hvað með foreldra sem standa frammi fyrir því að barnið muni ekki lifa út meðgöngutímann? Það hlýtur að vera skelfileg lífsreynsla að ganga fulla meðgöngu og vita það í 20 vikur eða meira að barnið er haldið ólæknandi sjúkdómi og muni ekki lifa fæðinguna. -- Persónulega myndi ég aldrei velja fóstureyðingu, en ég vil ekki takmarka rétt kynsystra minna til valsins. -- Nexa, 29.6.2007 kl. 22:32."
Þetta fundust mér áhugaverð rök, sem ég skal svara hér bráðlega, en hvers vegna vill menntakona eins og Nexa ekki skrifa undir eigin nafni -- er hún feimin eða hrædd við eitthvað? Eins og margir aðrir hef ég ekki góða reynslu af nafnleysingjum á vef mínum, hef alveg nóg af innleggjum til að svara, en þykir illt að eiga von á persónulegum, ómálefnalegum skætingi, eins og miklu oftar hefur átt sér stað um þá nafnlausu, og því setti ég fyrrnefnda reglu mína; með þessu er ég þó ekki að segja neitt neikvætt um talsmáta Nexu. Athugasemd 'Predikararans', sem birtist þar síðast eftir umræðurnar um tilvísaða vefgrein mína, hef ég falið, enda er hann jafn-nafnlaus og Nexa, bæði þar og á heimasíðu sinni.
Jón Valur Jensson, 2.7.2007 kl. 19:09
Ég kýs að blogga nafnlaust. Það getur vel verið að ástæðan fyrir því sé feimni eða hræðsla af einhverri sort, en ég hef gert örfáar tilraunir til að viðhalda bloggi undir nafni. Einhverra hluta vegna verð ég mjög meðvituð um allt sem ég læt frá mér og hika við að setja fram hugleiðingar sem gætu valdið deilum. Með því að blogga nafnlaust finnst mér ég vera frjálsari til að setja fram skoðanir mínar - og skipta um skoðun ef því er að skipta.
Önnur ástæða fyrir nafnleysinu er ósk spúsa míns, en hann vill ekki láta nafn sitt eða mynd á veraldarvefinn. Ég hef reyndar fengið undanþágu hvað varðar Barnalandssíðu Stubbsins, enda eingöngu myndir ætlaðar vinum og vandamönnum og er sú síða læst.
Ég á það líka til að skrifa um persónuleg málefni og fólk nátengt okkur, en gef viðfangsefnum mínum þá dulnefni. Aðilar nákomnir mér eiga hins vegar í litlum vandræðum með að lesa í gegnum textann og kannast við mig.
Það getur vel verið að ég fái kjarkinn til að gefa upp nafn síðar, jafnvel að ég fái mikla þörf fyrir að grobba mig af börnunum og fari að birta myndir.
Nexa, 2.7.2007 kl. 22:08
Hvar réð kirkjan öllu á miðöldum?
Komdu með dæmi um það og rök fyrir því áliti þínu.
Jón Valur Jensson, 3.7.2007 kl. 23:17
Comon Jón.... þarf alltaf að koma með einhver rosaleg dæmi um allt fyrir þig, þú veist vel að kirkjan hefur vaðið yfir menn á skítugum skónum í margar aldir.... ef þú veist ekki um þessi dæmi þá bara vorkenni ég þér yfir því hvað þú lest einhliða sögulýsingar.... sama japplið aftur... bla bla bla
Farðu nú að lesa alvöru sögur í stað skáldsagna
DoctorE (IP-tala skráð) 4.7.2007 kl. 10:28
Kæru Guðsafneitarar! Þið virðist nú einnig vera sagnfræðiafneitarar ef eitthvað er að marka innlegg ykkar á síðunni ?
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 4.7.2007 kl. 12:35
Ég leyfi mér að vísa mönnum í frábæra grein um villutrúardeilur milli Eckhardt og Páfadóms sem Ólafur Haukur Árnason setti fram :
http://www.hi.is/~oha1/eckhart.html
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 5.7.2007 kl. 13:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.