29.6.2007 | 20:32
Duglegur fótboltastubbur
Fótboltastubburinn fór á sína aðra fótboltaæfingu í gær. Þessi æfing tókst nokkuð betur en sú fyrsta, þar sem eigingirni á boltann kom í veg fyrir þátttöku.
Fótboltastubburinn fékk smá upphitun með kölkuðum markmanni (mömmu sinni) áður en æfing hófst og var orðinn ansi laginn við útspörkin. Æfingin hófst formlega með upphitun, en strákarnir áttu að fara í stórfiskaleik. "NEI! Ég vil spila fótbolta!" sagði minn og sat með mömmunum í brekkunni á meðan á stórfiskaleiknum stóð. Þegar honum var lokið var drengjunum raðað upp í tvöfalda röð og áttu þeir að sparka bolta á milli sín. Jú, þetta var nærri lagi, en mamma átti að vera með.
Smám saman tókst Bumbulínu að fikra sig af sparkvellinum og til hinna monthænanna í brekkunni. Sá stutti sýndi sig og sannaði, tók fullan þátt í æfingunni og hlýddi öllu sem þjálfarinn sagði. Nokkuð gott hjá dreng sem á enn 2 mánuði í að verða þriggja-og-hálfs. Montimont! Það var ekki að sjá að hann væri mikið yngri en hinir, enda stór eftir aldri.
Yfirlýsingin í bílnum á leiðinni heim var alveg eftir efninu: "Mamma, ég skoraði!" - Hvernig hann fór að því veit ég ekki, því ekki sá ég hann komast nálægt boltanum á meðan þeir spiluðu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.