3.6.2010 | 06:51
Af hverju á þetta að koma á óvart?
Ég skil ekki alveg að það að taka út séreignarlífeyrissparnað lækki námslán komi fólki á óvart. Við tékkuðum á því til að vera viss (sem var ekki erfitt), en gerðum ráð fyrir því allan tímann að úttektin okkar myndi lækka námslánin hans Nex. Við gáfum LÍN upp heildarúttekt séreignarsparnaðar auk launa og atvinnuleysisbóta hér í Hollandi, þ.a. ég hef ekki áhyggjur af þessu. Auk þess mætti skilja af fréttinni að námslánin skerðist sem nemur upphæð úttektarinnar, en í raun skerðast lánin sem nemur 10% af upphæð úttektar séreignarsparnaðar.
Hins vegar hef ég töluverðar áhyggjur af styrkingu krónunnar svona rétt fyrir útborgun námslána. Ef hún heldur áfram sé ég fram á að útborguð námslán í krónum verði 12% lægri en áætlunin um áramót - þar sem lánsloforðið er í evrum. Mér fyndist réttlátara að gengið sem LÍN miði við sé meðalgengi á tímabilinu sem lánið nær til.
Sparnaður skerðir lán | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.4.2010 | 09:11
Páska"frí" í Hollandi
Í Hollandi búa tæplega 17 milljón manns, 26% þeirra eru kaþólikkar. Ég hefði haldið að því væru páskarnir merkilegir og að í dag væri hvíldardagur (frí). En, neeeiiii - ég sit við skrifborðið mitt og les fræðigreinar... á skírdag ... Á morgun er reyndar frí, en búðir eru opnar Skrítið ...
Æ, ég veit af öllu þessu fólki mínu sem nýtur páskafrísins á Íslandi og ég er bara abbó...
Ein sem nennir ekki að vera í vinnunni í dag
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2010 | 11:12
Breytingar frá síðustu færslu
Tjah - asskoti er langt síðan ég röflaði síðast.
Bjartsýnin og jákvæðnin sem einkenna síðustu færslu entust stutt. Fljótlega eftir að færslan var skrifuð fór allt aftur í sama farið og ég fann það á Stubbnum að hann var ekki ánægður. Eftir annað samtal sem fól í sér loforð um bót og betrun af hálfu AuPairinnar og endalausa þolinmæði af okkar hálfu gáfumst við upp og sögðum henni að vera ekkert að hafa fyrir því að stíga upp í flugvél eftir jólafríið. Nýja stelpan byrjaði hjá okkur fyrstu vikuna í janúar og jedúddamía hvað hún er MIKLU betri. Börnin eru ánægð og fá þá athygli sem þau þurfa, hún er heiðarleg við okkur og við náum vel saman.
YESSSS!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2009 | 10:02
Allt að verða betra
Síðasta blogg var skrifað í pirringi og að einhverju leiti í hugsunarleysi. Ég sé það nú að margar athugasemdir mínar voru helst til - tjah - harðorðar...
Í stuttu máli skrifað: Ég átti gott spjall við núverandi AuPair og komst að því að hún var ekki að átta sig á aðstæðunum og hafði ekki hugmyndaflug til að skemmta 2 ára barni. Við settumst niður og gerðum stundatöflu fyrir vikuna, leituðum á netinu að hugmyndum að leikjum og urðum sammála um hvenær væri besti tíminn fyrir hana til að sinna þeim húsverkum sem við sömdum um.
Nú er ég búin að vera bestan part síðustu viku í Frakklandi og síðustu tvo daga á ráðstefnu annarsstaðar í Hollandi þ.a. AuPair og Nex hafa þurft að sjá um heimilið. Það hefur gengið vel og ég finn það á börnunum að þau eru að fá þá athygli sem þau þurfa á daginn.
Jibbííí!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2009 | 07:57
GARG!!!
Annað hvort eru ungar stúlkur í dag aldar upp við dekur og sérhlífni eða ég er bara einstaklega óheppin!
Hér í Niðurlöndum höfum við ekkert net af fólki til að redda okkur og skiptast á að gæta barnanna (skólakerfið er ekki beint byggt upp fyrir það að báðir foreldrar vinni úti) þ.a. við ákváðum að hafa AuPair - fínt mál. Ég fór sjálf sem AuPair fyrir 11 árum og ég man enn hvað var gaman að eyða deginum í að leika við krakkana og helgunum í stutt ferðalög með vinkonunum.
Spólum síðan 10 ár og komum að því að ég þarf sjálf að fá mér AuPai:
AuPair #1: Við erum nýflutt og erum að bíða eftir að fá símalínu og netið. Nex var ekki komin með vinnu og tók að sér að hjálpa henni að aðlagast börnunum og finna rútínu. Mamma AuPairinnar hringir á hverjum degi (og stundum oft á dag) til að "spjalla" - þegar hún er búin að vera hjá okkur í 2 vikur kemur skellurinn; "Ég er með heimþrá, afi er veikur og ég á flug heim eftir 2 daga!" SAY WHAT?!?!?!
AuPair #2: Jæja, ein stelpnanna sem ég hafði talað við fyrr um haustið hafði ennþá áhuga og var komin viku eftir að hin fór. Við sömdum um að ég sæi um öll þrif, það eina sem hún þurfti að gera var að sinna börnunum og sjá um að koma Stubb í og úr skóla og fara í þroskandi leiki með Ballerínunni. Að sjálfsögðu ætluðumst við samt til að umgengnin yrði góð og eldhúsið væri hreint þegar við kæmum heim (Það er bara sjálfsagt, ekki satt??) Til að byrja með gekk mjög vel - hún var mikið niðri með mér að horfa á sjónvarpið og okkur kom vel saman. Krakkarnir dýrkuðu hana og þau dönsuðu mikið á daginn. Smám saman fór að bera á kæruleysi og leti - Prinsessan var greinilega að horfa á MTV allan daginn því hún kunni engin barnalög en gat sungið vinsæl lög af MTV eins og hálfs árs gömul og dansaði eins og Beyonce (hmm...) Æ oftar gerðist það að þegar ég kom heim þurfti ég að þrífa eldhúsið áður en ég gat byrjað að elda (henni fannst mikið vandamál að það er engin uppþvottavél á heimilinu) og ég varð vör við það að á tíma sem Prinsessan átti að hafa óskipta athygli var AuPair á netinu. Það kom líka fyrir oftar en einu sinni að hún fór út á virku kvöldi, kom seint heim og var grautþunn að passa börnin - þá munaði litlu að hún yrði send heim.
AuPair #3: Þessi er búin að vera hjá okkur í rúman mánuð. Í upphafi var talað um að ég væri með dagskipulag fyrir börnin sem hún ætti að fylgja (ég lærði sko af reynslunni með #2). Tvisvar í viku fer Prinsessan í leikskóla hálfan daginn og þá ætti AuPair að ryksuga og skúra annan daginn og þrífa klósettin hinn daginn (hálftíma verk hvort um sig - ekkert ósanngjarnt, ekki eins og hún þurfi að skipta á rúmunum eða pússa gluggana). Grundvallar-reglurnar eru: AuPair á að vera vakandi í vinnunni - ekkert sjónvarp fyrir börnin á daginn - eldhúsið á að vera hreint þegar við komum heim - dagurinn á að samanstanda af leik bæði úti og inni og AuPair á að taka þátt í leiknum og kenna þeim í leiðinni mannleg samskipti - herbergi barnanna eiga að vera snyrtileg eftir daginn (mjög auðvelt ef AuPair tekur þátt í leiknum) - osfrv (ég er ekkert ósanngjörn - að mínu mati a.m.k.)
Reynslan af #3 er: Eldhúsið er stundum ekki í lagi - stofan er yfirleitt í drasli - herbergi barnanna eru í rúst (og það þrátt fyrir að ég taki til á sunnudögum) - Prinsessan er með bleyjubruna - ryksugun og klósettþrif hafa farið fram tvisvar á þessum 5 vikum, bæði skiptin eftir að ég tók það fram að hún væri ekki búin að þessu - hún fer seint að sofa og sefur í sófanum á morgnanna á meðan Prinsessan litar húsgögn, gólf og veggi og dreifir bossaþurrkum um alla stofuna!!!
Það versta við þetta er að hún er búin að kynnast nokkrum öðrum AuPairum sem eiga að hugsa algerlega um heimilið sem þær eru á og fá ekkert aukalega borgað fyrir það - samt sér hún ekki hvað hún hefur það gott og kvartar yfir að þurfa að gera hluti sem samið var um í upphafi.
Spurning um að fara að auglýsa eftir AuPair #4...
GARG!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2009 | 07:24
Ég get ekki sagt að mér finnist hollenska kerfið gott
Hér er skylda að vera með sjúkratryggingu - c.a. 100 evrur á mánuði á mann (ríkið borgar reyndar fyrir börn yngri en 18 ára). Ef þú hefur litlar tekjur færðu eitthvað til baka frá ríkinu, en á okkar heimili þar sem annað okkar er doltorsnemi (láglaunastarf) og hitt í námi fáum við ekki nema 15% endurgreiðslu.
Aftur á móti - ef þú ert tryggður er nánast allt fríkeypis, þ.á.m. p-pillan og ofnæmislyf. Það þarf að bæta c.a. 20 evrum á mánuði á haus við trygginguna og þá er tannlæknakostnaður mikið niðurgreiddur líka.
Hin hliðin á kerfinu sem ég algerlega þoli ekki er að þeir eru með svokallað "gatekeeper" kerfi. Það er sama hvað er að þér þú þarft alltaf að fara fyrst til heimilislæknis og fá tilvísun á sérfræðing. Þú þarft semsagt að sannfæra heimilislækninn þinn að það sem hann getur boðið þér er ekki nóg og þú viljir hitta sérfræðing. Tökum dæmi sem ég held að allar konur geti skilið; nú þarf ég að fara í mína reglubundnu krabbameins-skoðun. Heimilislæknirinn minn á að sjá um þá skoðun, en ég get ekki hugsað mér að kallinn sem hitti nokkrum sinnum á ári vegna annarra veikinda okkar eða barnanna fari eitthvað að pota þarna niðri. Ég vil kvenkyns kvensjúkdómafræðing í þetta verk og hananú!! Þá liggur fyrir að ég þarf að sannfæra kallinn sem ég treysti fyrir greiningu á heilsubresti barnanna minna um að ég treysti honum ekki fyrir að frakmvæma krabbameins-skoðun á mér...
Af hverju má ég ekki bara panta mér tíma hjá kvensjúkdómalækni?
Íslenska heilbrigðisþjónustan sú þriðja besta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2009 | 08:23
Noorderlijk scheepvaartmuseum
Þessar barnlausu vikur í sumar höfum við Nex notið þess að ráfa um Groningen og skoða borgina. Í einum af útúrdúrunum okkar rákumst við á safn sem við ákváðum að skoða aðeins. Þetta safn heitir Noorderlijk scheepvaartmuseum (Norðlæga skipasafnið) og eins og nafnið gefur til kynna fjallar það um skipasögu svæðisins.
Meðal þess sem safnið fjallar um er saga skipasmíða á svæðinu, en þrátt fyrir að Groningen sé í talsverðri fjarlægð frá sjó er mikið byggt af skipum hér. Síkjakerfið er vel skipulagt (eins og Hollendingum einum er lagið) og hefðin er sterk. Einnig er hægt að fræðast um líf sjómanna, bæði í landi og um borð og saga hvalveiða Hollendinga er rakin - Já, Hollendingar veiddu hvali (þó yngri kynslóðin kjósi að gleyma því)
Annað safn leynist innan skipasafnsins; Niemeyer Tabaksmuseum fjallar um tóbaksnotkun!
Skemmtilegt, hé?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.7.2009 | 13:23
Skammastmín!
Það slagar í 8 mánuði síðan ég skrifaði síðast...
...enda er búið að vera brjálað að gera. Ég skilaði fyrsta uppkasti að fyrstu vísindagreininni minni á mánudaginn og er búin að vera að skrifa prótókol fyrir næstu rannsókn þessa vikuna. Leiðbeinandinn minn gefur mér athugasemdir á mánudaginn og þá hef ég 3 daga til að snurfusa áður en ég fer í sumarfrí.
Annars var ég að fá svar frá International Society of Pharmacovigilance (ISoP) um að ég hafi fengið samþykkt veggspjald á ráðstefnunni þeirra í október. Ég er að fara til Reims í Champagne-héraði í Frakklandi í október með 90x120 cm veggspjald og á þar að spjalla við merkilegt fólk um verkefnið mitt. *mont* Nú er bara að bíða eftir svari frá skipuleggjendum hollensku læknadaganna. Ég sótti um að fá að halda fyrirlestur þar og bíð spennt...
Prinsessan og Stubburinn eru búin að vera á Íslandi síðasta mánuðinn í góðu yfirlæti hjá foreldrum mínum. Stubburinn hefur verið virkur í fótbolta og handbolta og fór á sundnámskeið og Prinsessan er farin að tala alveg heilmikið. Ég get ekki sagt annað en að við skötuhjú söknum þeirra alveg skelfilega og höfum þurft að halda úti dagskrá til að halda geðheilsunni. Nú er Skessuhæð orðin vel boðleg gestum, svefnherbergishæðin er nýmáluð og flott og við erum búin að skoða heilmikið af Hollandi. Nú get ég varla beðið lengur, en þarf að bíða í 5 daga til viðbótar...
Nex er búinn að fá inngöngu í Hansa-háskólann í Groningen og byggir þar á iðnfræðimenntunina sem hann er þegar kominn með. Á sama tíma að ári ætti minn maður (já, þá verður hann orðinn eiginmaður) að vera kominn með BS gráðu í orkufræðum (Power generation and distribution). Ég er að sjálfsögðu að rifna úr monti
Ég stefni að því að henda inn fróðleikskornum um þá merkilegu staði sem við heimsækjum í fríinu okkar - eftir því sem ég nenni...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.12.2008 | 08:31
Allt annað gengi í Hollandi
Fyrir forvitnis sakir kíkti ég á gengistöfluna hjá ABN-Amro. Þar er evran á 298 krónur.
Seðlabanki Evrópu þorir ekki að gefa út gengi fyrir 4 og 5 des, þar er gengið sagt vera miðað við 3. des og er evran á 290 krónur.
Vonandi fer krónan í þá átt sem skráist hjá Seðlabanka Íslands...
Búist við áframhaldandi styrkingu krónunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2008 | 21:06
...og afraksturinn má sjá hér!
Þetta er leikhorn Stubbsins á Skessuhæð:
Ég er ekkert smá stolt af okkur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)