1.4.2008 | 11:04
Breyti um stíl - bloggstíl
Jæja, þetta kalla ég ekki að vera dugleg í blogginu!
Kannski er maður bara svona hugmyndasnauður einstaklingur að bullið í kollinum kemst ekki fram í fingurgóma og í vélina?
Ég hef því ákveðið að breyta um bloggstíl og fara í heilsublogg (þeir bloggvinir sem vilja sparka mér fyrir hjarðeðlið mega það alveg ). Ég uppgötvaði það nefnilega um daginn að ég er orðin næstum því jafn þung og ég var þegar ég var á steypinum Það er 38 kílóum yfir kjörþyngd!!!!
Ég er búin að gefa mér 18 mánuði til að losna við þessi 38 kíló og ef það tekst þá gifti ég mig bara kannski. Ég er reyndar ekki alveg búin að sannfæra kallinn...
Átakið byrjaði á annan í páskum, ég fer í hverju hádegi (eða fyrir vinnu) í World Class, tvisvar í viku í stafgöngu og er að passa matarræðið. Í gær var vigtun og mín bara búin að missa 700gr, nokkuð gott miðað við að hafa farið með kallinn út að borða á miðvikudaginn og svo var svaðalegt partý á föstudag, með tilheyrandi laugardagsþynnku.
Ég skelli inn myndum þegar næsta myndataka fer fram - ekki fer ég að sýna "fyrir" myndina án þess að sýna árangur líka!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.1.2008 | 13:42
Barnalegt
Ég sit í þessu og er að fylgjast með beinni útsendingu frá Ráðhúsinu. Ég get varla orða bundist yfir þessari vitleysu...
Ég var ekki sátt við herlegheitin í október, fannst Björn Ingi ekki sýna heilindi, og ég get svosem ekki verið fullkomlega sátt við atburðarrásina þessa vikuna. Það á það enginn skilið að vera stunginn í bakið.
Aftur á móti finnst mér börnin á pöllunum ekki sýna rjómann af íslenskri æsku. Það er eitt að mæta á staðinn með kröfuspjöld og sýna samstöðu með sínu fólki og annað að vera með skrílslæti og trufla fundarstörf.
Ég veit ekki hverjir eru hallærislegastir: borgarfulltrúarnir (allir með tölu), börnin á pöllunum eða virðulega "fullorðna" fólkið á pöllunum sem glottir út í annað og óbeint hvetur börnin áfram.
Ég er að spá í að setja upp nýja könnun: Hvaða flokkur leggur fram lagabreytingatillögu á Alþingi um að hægt sé að kjósa í sveitastjórnir á miðju kjörtímabili, og hvenær?
Ólafur kjörinn borgarstjóri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.1.2008 | 11:31
Hinn ómetanlegi dásamleiki snuðs
Prinsessan mín er skapstór lítil dama. Þessa tæpu fimm mánuði sem hún hefur glatt okkur hefur hún fengið ýmiskonar uppnefni, t.d. öskurapi, garganbolla og óperusöngkona. Langömmurnar eru alveg með það á hreinu að með þessi lungu verður hún fínasta söngkona (ef hún nær að halda lagi, sem er nokkuð meira en foreldrarnir geta). Ég verð að viðurkenna að ég var orðin svolítið þreytt á söngnum sem krafðist sífelldrar dvalar í fangi mömmunnar, hún m.a.s. svaf uppí. Þetta var það alvarlegt að ég gat varla brugðið mér af bæ án þess að hún kvartaði sáran við pabba sinn, eða hvern þann sem leit eftir henni á meðan. Lúrarnir hennar voru stuttir og hún var farin að verða geðill - það fékk enginn bros nema Stubburinn, sem er hennar uppáhalds leikfélag.
Hverju var þetta ófremdarástand að kenna? Jú, barnið harðneitaði að taka snuð! Í hver skipti sem við reyndum snuðið grét hún bara sárar og kúgaðist þar til við gáfumst upp (sem tók ekki langan tíma). Ég var farin að sjá fyrir mér vandræði þegar ég færi aftur að vinna. Hún myndi vera pirruð út í pabba sinn allan daginn (af því hann er ekki með brjóst) og síðan myndi mér ekki haldast á dagmömmum því hún væri alltaf að heimta fangið.
Á nýársdag (eftir frekar óskemmtilegt gamlárskvöld - það er ekkert gaman að sitja í gegnum fínan mat með grútsyfjað barnið öskrandi og það er heldur ekkert gaman að vera í fínum kjól og þurfa alltaf að vera að taka brjóstið út til að róa barnið) fengum við nóg. Nex tók hana í fangið, valdi snuð og stakk því upp í hana, aftur og aftur og aftur. Hún fór frá voli í grát í öskur og að lokum eftir klukkutíma þrjóskustríð feðginanna lá hún snöktandi í fanginu á honum tottandi snuðið. Síðan þá hefur snuðið verið hennar besti vinur, hún sefur í sínu rúmi, hún sefur tvo langa og einn stuttan lúr yfir daginn og drekkur á tæplega 4 tíma fresti.
Snuðið hefur breytt öskurapanum mínum í sannkallað draumabarn! Það er verst að nú þarf ég að venjast því að hún sé ekki uppí, ég hef átt í stökustu vandræðum með að sofna síðan hún fór að sofa í sínu rúmi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2007 | 09:59
3 ára pissudúkka
Bleyjuleysi stubbsins hefur gengið ágætlega síðan við tókum upp stimplakerfið. Ég útbjó dagatal og við keyptum stimpla með brosköllum og fýluköllum. Ef hann pissar í rúmið þarf hann að stimpla fýlukall og ef hann er þurr fær hann að stimpla broskall. Eftir ákveðinn fjölda broskalla er fjölskylduferð í sund.
Smám saman urðu broskallarnir fleiri en fýlukallarnir og þar til á þriðjudaginn voru komnir 11 broskallar í röð. Allt í einu fór allt í bakslag; nú eru komnir 3 fýlukallar í röð og hann pissaði m.a.s. á sig í leikskólanum.
Ég verð að viðurkenna að ég er orðin svolítið þreytt og svekkt. Kannski erum við að þessu aðeins of snemma - hann verður jú ekki 4 ára fyrr en í febrúar. Á hinn bóginn er hann svo duglegur og hefur verið bleyjulaus á daginn svo lengi.
Kannski ofmetum við getuna. Við gleymum því stundum að hann er bara þriggja - hann er nefnilega á við 5 ára meðalbarn í hæð og þyngd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.11.2007 | 23:57
Ungbarnakveisa
Litla prinsessan mín hefur þjáðst af ungbarnakveisu í rúman mánuð og þar með voru fagrar fyrirætlanir um að halda úti góðu bloggi farnar út um þúfu. Ég var búin að reyna allt; Minifoam, dropa frá grasalækni (já, lyfjafræðingurinn sem hefur litla trú á grasalæknum gaf dóttur sinni Skírnis-dropa), ég hætti að drekka gos og er búin að minnka sykur töluvert. Allt kom fyrir ekki og ég gat bara verið fegin að hún var skást á næturnar.
Ég ákvað því að fara með bæði börnin til barnalæknis á mánudaginn var. Yndislegi barnalæknirinn okkar var þeirrar skoðunar að við ættum ekki að leyfa barninu að þjást og skrifaði út dropa fyrir hana.
Ég get svo svarið það að við fyrsta skammt var eins og ég fengi annað barn í hendurnar: Hún er hætt að gráta allan daginn og er m.a.s. farin að hjala. Hún hjalar við bangsana á óróanum yfir rúminu, hún hjalar við spegilmynd sína á leikteppinu og hún hjalar við mömmu sína á rólegu stundunum okkar eftir gjöf. Ég er í skýjunum!!
Næst á dagskrá er að kenna dömunni að taka snuð og sætta sig við pela. Ég er byrjuð í námi hjá Endurmenntun HÍ og þarf að geta sett hana í pössun í heilan dag, nokkra daga í nóvember. Mamma var með hana hálfan daginn í dag og gekk ekkert að koma pelanum upp í hana. Ég ákvað því að fara sjálf með Stubbinn á fótboltaæfingu og láta pabbann kenna henni á pelann. Eftir 40 mínútna þrjóskustuð tókst þetta - hún drakk úr pelanum! Reynum aftur á morgun og sjáum hvort hún muni þetta.
3.10.2007 | 20:06
Ekki er öll vitleysan eins...
... og hugmyndin komin frá skrifstofustjóra Heilbrigðisráðuneytisins. Lyfjasjálfsali???
Talandi um að gefa afslátt af reglunum.
Lyf eru ekki hver annar varningur! Almenningur gerir sér takmarkaða grein fyrir verkun lyfja og þarf í mörgum tilfellum leiðsögn starfsmanna apótekanna. Ég legg sjálf faglegan metnað í að upplýsa viðskiptavini um magntakmarkanir inntöku og veita aðrar upplýsingar sem viðskiptavinurinn óskar eftir.
Ég man vel eftir léttu rifrildi sem ég átti við vel meinandi konu í flugvél: Við vorum á leið á sólarströnd með Stubbinn 18 mánaða gamlan. Hann var búinn að vera með eyrnabólgu meira og minna í hálft ár og því vildi HNE-læknirinn hans setja rör í eyrun á honum fyrir flugferðina.
Ég vil taka það fram áður en lengra er haldið að Stubbnum er annt um sitt frelsi og vill ekki láta tjóðra sig niður í belti eða fang foreldra sinna. Eins og flestir vita er nauðsynlegt að börn sitji kyrr í sætum sínum í flugtaki og lendingu, en 18 mánaða fjörkálfur skilur slíkt ekki. Stubburinn vildi til afa síns í næstu röð og varð alveg snarvitlaus þegar hann fann að hann var fastur í belti áfast við móður sína.
Eitthvað fór grátur barnsins í taugarnar á konu sem sat örfáum röðum framar í vélinni (skiljanlega, lungu drengsins eru sterk). Allt í einu stóð konan við hliðina á sætinu mínu og otaði að mér glasi af Audax (verkjastillandi eyrnadropar sem ekki eru lengur á markaði);
Konan: Viltu ekki gefa barninu þetta?
Ég: Nei, takk. Þetta er bara frekjukast. Þar að auki má hann ekki fá dropa í eyrun núna, hann var að fá rör.
Konan: Þetta eru voða fínir dropar til að setja í nefið. Þá verður honum ekki svona illt í eyrunum.
Ég: Nei, nei. Þetta eru eyrnadropar og hafa áhrif á hlustarverk. Þar að auki var hann að fá rör, þannig að það getur ekki verið að honum sé illt í eyrunum.
Konan: Lyfjafræðingurinn í apótekinu sagði að við ættum að setja þetta í nefið á stúlkunni okkar fyrir flugtak og lendingu. Viltu ekki fá af þessu fyrir drenginn? (Hún hefur örugglega verið að kaupa nefdropa líka, því það vita allir lyfjafræðingar að Audax á ekki að fara í nef.)
Ég: Ég er lyfjafræðingur og þetta eru eyrnadropar!
Konan: Við settum þetta samt í nefið á stúlkunni okkar og það virkaði fínt! Strunsaði burt í fússi.
Það getur vel verið að ég hafi verið farin að sýna óþolinmæði mína, en guð minn góður, hvenær náði hún því ekki að ég vissi nákvæmlega hvað væri að mínu barni og það var pjúra frekja - ekki eyrnaverkur. Stubburinn þagnaði loks þegar sætisbeltaljósið var slokknað og níu ára gömul frænkan fór með hann í göngutúr um vélina. Ég veit ekki hvort skapaði okkur meiri óvinsældir meðal flugfreyjanna; öskrin í flugtaki eða sífelldur göngutúr á milli foreldranna og langafans tuttugu röðum aftar. Stubburinn fékk að vera í fangi afa síns í lendingu og horfði dolfallinn á ljósin á jörðinni. Flugfreyjurnar voru ekkert að skipa afanum að draga fyrir gluggann - betra að brjóta aðeins reglurnar en að fá þessi öskur aftur.
Ég ætla að vona að Prinsessan verði aðeins viðráðanlegri þegar við förum í fyrstu utanlandsferðina hennar - hún er með enn sterkari lungu en stóri bróðir.
Mætti selja lausasölulyf í sjálfsala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.10.2007 | 18:26
Tilraunastarfsemi
Þeir sem þekkja mig vita að ég er ekki manna viljugust til tilrauna. Ég held mig yfirleitt við sömu klippinguna árum saman og eldamennska er eftir uppskriftum - með mæliskeiðum og öllu.
Ég á móðursystur sem er hárgreiðslumeistari, m.a.s. mjög flinkur hárgreiðslumeistari. Miklar breytingar á hárstíl mínum hafa einkum verið henni að þakka - eða kenna, eftir því hvernig á það er litið. Þegar ég var 11 ára og frænka mín í hárgreiðslunámi fékk hún mig lánaða til að æfa sig. Ég kom heim með permanent! Ég var ellefu ára gleraugnaglámur með lambakrullur. Ég verð að taka það fram að yfirleitt er hárið á mér svo slétt að teygjur renna úr því og týnast.
Sjö árum síðar var ég á leið í útskriftarferð með MR. Þar sem hárið á mér er svo slétt og gróft verður það óviðráðanlega flatt í röku loftslagi (s.s. á sólarströnd). Minnug þess hversu flott ég var þegar ég var ellefu ákvað ég að fá mér permanent fyrir ferðina. Þá var frænka mín flutt 290km í burtu og því ekki minn reglulegi klippari. Tæpum mánuði fyrir brottför lét ég verða af því að skella rúllunum í og labbaði sæl með mínar krullur út af hárgreiðslustofunni. Einhverra hluta vegna entist permanentið ekki lengi og á öllum myndum frá Benidorm eru bara smá lufsuliðir í endunum á axlarsíðu hárinu - ekki smart þegar maður er átján!
Permanentið þegar ég var ellefu var fyrsta skiptið sem ég fékk að taka þátt í vali á klippingu. Móðir mín telst vera smekkmanneskja og jafnvel íhaldssamari en ég. Samt eru flestar myndir af mér frá aldrinum 4-10 ára ömurlegar - sítt að aftan og apecut! Mamma tók völdin aftur í smá tíma eftir permóið og ég fékk að hafa mitt axlarsíða ljósa hár í gaggó. Í lestrarfríinu fyrir samræmdu prófin skrapp ég 290km norður og heimsótti frænku mína í 5 daga. Fínt næði í sjávarplássinu til lesturs og það er alltaf gaman að spjalla við móðursystur mínar. Þegar ég steig úr vélinni á Reykjarvíkurflugvelli þekkti móðir mín mig ekki: Ég var í lopapeysu (sveitastemmningin), stuttu svörtu pilsi og Dr.Martin's skóm (hey - it's the nineties) og axlasíða ljósa hárið orðið knallstutt og kastaníubrúnt/rautt. Mér fannst ég flottust! Kastaníubrúni liturinn reyndist kostnaðarsamur í viðhaldi, en hár sem týnir teygjum og permanenti vill líka týna lit. Ég gafst því upp á dökka hárinu og safnaði aftur í - vitimenn - axlarsítt ljóst hár.
Það var ekki fyrr en sumarið eftir stúdentspróf - og ég á leið til vinnu í útlöndum - að ég gerði breytingu sem hefur haldið sér allt til dagsins í dag. Ég lét klippa mig knallstutt og aflitað með hettustrípum. Ef þið bæðuð einhvern um að lýsa mér fyrir ykkur væri lýsingin örugglega á þessa leið: Nokkuð yfir kjörþyngd, meðalhæð, stór augu og ljóst stutt hár. Jæja, þannig er ég ekki lengur ...
... Ég er komin með svart hár!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.9.2007 | 22:57
Ég var ekki búin að efna loforðið...
Ég var víst búin að lofa nafnatilkynningu eftir skírnina á laugardag, en sveik það alveg.
Dömunni liggur svo svakalega á að stækka að hún liggur á brjóstinu allan daginn og ég rétt næ að gera það allra nauðsynlegasta (fara í sturtu, borða og ganga frá í eldhúsinu) á meðan hún sefur. Annars er hún eitthvað kvefuð og var með hita daginn fyrir skírnina, þ.a. ég er ekki enn farin að leggja í að láta hana sofa úti í vagni.
Dagarnir hafa gengið út á það undanfarið að horfa á BBC-búningadrama á DVD og HM í knattspyrnu kvenna á RÚV. Ég verð að fara að innheimta kengúrupokann frá litlabróður þ.a. ég geti a.m.k. brotið saman þvott og jafnvel bloggað með prinsessuna í fanginu.
Mér skilst að góðvinur minn úr Árbænum og hans hafnfirska spúsa ætli að hjálpa mér að fjölga börnunum í vinahópnum. Hamingjuóskir í Hlíðarnar Auðvitað krefst ég nánari upplýsinga um hvenær von er á krílinu og heimsóknarréttar þegar foreldrarnir eru tilbúnir til að taka á móti heimsóknum.
Eru allir orðnir forvitnir??? Litla prinsessan mín heitir Iðunn Birna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.9.2007 | 22:45
Hvur andsk...
Þar fóru mínir menn illa að ráði sínu í erfiðum leik við hrikalegar aðstæður. Það verður þó ekki haft af Fjölnismönnum að þeir voru asskoti góðir. Vonandi fá þeir að nota alla sína menn í úrslitaleiknum við FH (nokkrir lykilmanna Fjölnis eru lánsmenn frá FH) og taki Hafnfirðingana. Ég býst fastlega við að horfa á leikinn í sjónvarpinu og fagna mörkum Fjölnis.
Af fjölskyldunni er allt fínt að frétta. Dagarnir eru enn sem komið er allir eins; Lilla vill bara liggja á brjóstum og drekka og því ekki mikið pláss fyrir bloggskrif. Stubburinn fór í þriggja og hálfs árs skoðun í dag og gekk bara fínt. Hann er í efstu kúrfu í bæði hæð og þyngd og öll önnur próf komu bara fínt út.
Skírn er boðuð á laugardag ... ég upplýsi nafnið hér á vefnum að henni lokinni.
Fjölnir úr 1. deild í bikarúrslitin gegn FH | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.8.2007 | 16:29
Grobb og mont og ég má það alveg!
Við mæðgur komum heim á þriðjudagseftirmiðdegi og höfum stokkað upp í sólarhringnum síðan. Í stað þessa venjulega "vaka á daginn, sofa á nóttunni" höfum við ákveðið að það séu 3 nætur yfir sólarhringinn og engin þeirra á milli kl 00 og 05. Fyrsta nótt er yfirleitt c.a. 05-08, næsta upp úr hádegi og svo aftur frá kvöldmat og fram að miðnætti. Þess á milli eru lúrarnir of stuttir til að mamman sofni og hefur sjónvarpsáhorf heimilisins litast af því. Ég get með sanni sagt að ég viti allt það nýjasta um störnurnar í Hollívúdd, enda eina sem hægt er að horfa á á nóttunni er "Star Daily" á Star! sjónvarpsstöðinni. - Ég er alveg að fara að opna BBC diskana sem komu frá Amazon um daginn.
Fæðingin gekk vel. Sú stutta var reyndar búin að kúka í legvatnið, þ.a. ég þurfti að fæða á fæðingargangi í stað þess að fara í Hreiðrið. Það var allt í lagi, ég fékk svo frábæra ljósu þar.
Ég vaknaði aðfaranótt mánudags kl 05:20 með verki og legvatnið farið að leka og Lilla var mætt á svæðið kl 10:10. Skotfljót þessi!
Stubburinn er svo montinn af Lillu og er alltaf að strjúka henni um kollinn. Hann kemur líka með bækur og heldur opnum fyrir hana til að sýna henni myndirnar, ekkert smá sætur. Hann gerir sér líka alveg grein fyrir að hún er mjög lík myndunum af honum frá því hann var svona lítill.
Ég get ekki annað en póstað mynd af sætustu systkinum í heimi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)