Stúlka fædd

Litla daman fæddist þann 13. ágúst 2007 kl 10:10.

prinsessa

48cm og 2850g (11.4 merkur) - oggupínulítil.

Mamman er sybbin og skrifar meira seinna. 


Hvað með 4 og 5 ára?

Ég veit ekki hver ykkar skoðun er, en mér finnst eðlilegt að 4 og 5 ára börnum sé boðið upp á skipulagt tómstundastarf.

Flest knattspyrnufélög bjóða upp á æfingar fyrir börn yngri en 6 ára (8. flokkur karla og 7. flokkur kvenna) og margar aðrar íþróttagreinar bjóða yngri börnum þátttöku. T.d. karate og fimleikar. Æfingagjöld fyrir Stubbinn minn í knattspyrnu eru 20.000kr á ári, nokkuð lægra en í eldri flokkunum, en ekki styrkhæft frá Borginni, skv. þessari frétt, þar sem hann varð 3 ára á þessu ári. Hann er fótboltamaður af ástríðu og lifir fyrir að fara á æfingar.

Einnig er mælst til þess að börn hefji tónlistarnám snemma. Suzuki-aðferðin miðar við 4-5 ára.

Ég vildi gjarnan geta leyft Stubbinum að velja sér annað tómstundagaman til að stunda samhliða fótboltanum. Tónlist, fimleika, myndlist eða hvaðeina sem hann hefur áhuga á. Það er hins vegar nokkuð stór biti að kyngja að borga kannski 50.000kr á ári fyrir tómstundirnar og fagna ég því framtaki Borgaryfirvalda. 

Hins vegar vil ég koma á framfæri smá athugasemd: Hvað með 4 ára og 5 ára börnin?


mbl.is 20 þúsund börn fá frístundakort
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Á morgun klukkan ellefu!"

Mágkona mín var í heimsókn á föstudagskvöld þar sem við Nex buðum Skagfirðingunum hennar í hamborgara á la Nex (mmm, nú verð ég svöng aftur). Stubburinn sat með henni úti á "svölum" (við búum á jarðhæð) og var á fullorðinslegu spjalli með frænku sinni. Ég sat inni í stofu og hleraði samtalið:

Frænka: "En hvenær ætlar litla systir þín að fæðast?"
Stubbur: "Á morgun klukkan ellefu!"
Frænka: "Strax á morgun?"
Stubbur: "Já, ég fer með mömmu til læknisins að sækja litlu systur."

Ég er búin að segja nokkrum fjölskyldumeðlimum þessa sögu yfir helgina og varð hugsað til þess að ég er ekki nógu dugleg að punkta niður gullkorn af munni Stubbsins. Ég læt því fljóta með nokkra gullmola sem fallið hafa vegna væntanlegrar fjölgunar í fjölskyldunni. (Einnig vegna frændans sem kom í heiminn í nóvember s.l.)


Skilgreiningar:
Á morgun: Einhverntíman næstu daga að morgundeginum undanskildum.
Í gær: Einhverntíman síðustu daga að gærdeginum undanskildum.
Á eftir þegar ég er búin að sofa: Á morgun.
Áðan: Í gær eða fyrr í dag.

Um ófæddan frændann: "Hann ætlar að verða fótboltastrákur eins og ég og hann á að vera í marki!"

Stubburinn hitti leikskólafélaga sinn úti á róluvelli og fór að spjalla við foreldrana:
Foreldri skólafélagans: "Áttu einhver systkini?"
Stubbur: "Já, ég á bróður."
Foreldri skólafélagans: "Hvað heitir bróðir þinn?"
Stubbur: "Axel." (Það er litli frændinn)
Foreldri skólafélagans: "Hvað er hann gamall?"
Stubbur: "Átján! " (Frændinn var 7 mánaða þegar þetta samtal átti sér stað.)
Foreldri skólafélagans: "Áttu fleiri systkini?"
Stubbur: "Já, ég á systur."
Foreldri skólafélagans: "Hvað er hún gömul?"
Stubbur: "Fimm " (Systirin var ófædd.)

Að segja ömmu sinni og afa að von sé á litlu systkini:
"Ég ætla að verða stóri bróðir!"
Amma (hissa): "í alvöru? Er mamma með lítið barn í maganum?"
Stubbur: "Já, litla systur!" (Viti menn, 14 vikum síðar sýndi sónarinn stelpuskott.)

Mamma: "Hvort viltu heldur, systur eða bróður?" (Spurt áður en kynið var ljóst)
Stubbur: "Systur!"
Mamma: "En þú veist að systir er stelpa og bróðir er strákur."
Stubbur: "Já, en þetta er stelpa og stelpur geta líka spilað fótbolta!" (Sko minn!)

Eftir að hafa farið með í mæðraskoðun og fengið að hlusta á hjartsláttinn hjá litlu:
"Af hverju sótti ljósmóðirin ekki litlu systur?"

Á biðstofu læknis:
Stubbur: "Mamma, erum við að fara til læknisins núna?"
Mamma: "Já."
Stubbur:  "Ætlar læknirinn þá að sækja litlu systur í rassinn þinn?" (Ekki beint þægilegasta spurningin að fá á yfirfullri biðstofu)

"Æi mamma, förum bara núna til læknisins að sækja litlu systur!" (Svolítið óþolinmóður) 

 

Það verður forvitnilegt að sjá hvort sú stutta fæðist klukkan ellefu. 


Loksins hlýðir maður ljósu

Í dag er formlega síðasti dagurinn minn í vinnu þar til eftir fæðingarorlof. Grin

Ljósan gaf mér smá svip á miðvikudaginn þegar ég lýsti fyrir henni vinnufyrirkomulaginu og Nex sá ástæðu til að leiðrétta aðeins frásögnina. Ég gleymdi nefnilega að minnast á það að ég gleymi stundum að borða hádegismat. Úps! Blush Hún vill líka að ég sofi meira. 8 tímar yfir nóttina mínus pissupásur og veltingur er víst ekki nóg og ég má ekki stilla vekjaraklukkuna. Safna kröftum takk! Hmm... hvað ætli ég hafa mikla þolinmæði fyrir svoleiðis vitleysu? Ætli ég horfi ekki bara á BBC Prime og DVD safnið eins og það leggur sig næstu dagana.

Ég er búin að setja upp könnun til hliðar þar sem "hinum fjölmörgu" lesendum bloggsins er boðið upp á að giska á fæðingardag. Hitti einhver á rétta dagsetningu fær sá hinn sami mynd af dömunni og titilinn heiðursfrænka/heiðursfrændi. 

Garðyrkjumennirnir eru búnir að þökuleggja blettinn á bak við blokkina. Ég get svarið að ef ég væri að skipta við þá beint væri ég búin að krefjast þess að þeir taki upp þökurnar og slétti jarðveginn betur undir. Grasflötin minnir meira á móa en grasflöt. Ekki beint auðvelt fyrir 3 ára stubb að spila fótbolta á þessu.  Ég er samt búin að ákveða að láta þetta ekki pirra mig. Grasið jafnar sig örugglega á endanum og við ætlum að taka upp jarðveginn á blettinum okkar næsta vor hvort eð er. Líklega helluleggjum við blettinn áður en við setjum upp grindverk.

Farin aftur að vinna - síðustu 2 tímana þetta árið Tounge


Yfirgengilega löt

Ég er yfirgengilega löt þessa dagana. Ætli kroppurinn sé að segja mér að slappa af og safna kröftum?

Í dag eru 10 dagar í settan dag - ég hef nettan grun um að það séu c.a. 20 dagar í fæðinguna sjálfa. A.m.k. ef ég líkist mömmu eitthvað, en hún gekk 10 daga framyfir með okkur öll. Ætli 19. ágúst sé málið?

Nex dekraði mig í dag - kannski þess vegna sem ég er svona löt? Hann sá um að fara með Stubbinn á fótboltaæfingu og ég fékk að kúra mig í Lay-Z-Boy stólnum á meðan. Hann eldaði síðan grænmetis-"wok" í kvöldmat og gekk frá eftir matinn líka. Kallinn er alveg að kafna úr framtakssemi - hann er m.a.s. kominn í íþróttagallann og er að fara út að skokka. Og ég er löt!

 Ég er hins vegar búin að ákveða að sjónvarpsdagskráin "sökkar" þetta mánudagskvöldið og er að fara í bað ... ef ég nenni að standa upp og láta renna í baðið.


Skref í rétta átt?

Það er ánægjulegt að sjá að heilbrigðisráðherra lítur til annarra lausna en að stofna Lyfjaverslun Ríkisins eða neyða heildsala og smásala til að taka á sig frekari álagningarskerðingu.

Hitt er svo annað mál hvernig skuli útfæra þessa lausn. Ég tel að það sé nauðsynlegt að pakkningar og fylgiseðlar séu á íslensku. Líklega er einfaldast lausnin að heildsalar geti límt merkingar á pakkningarnar og að lyfjafræðingar í apótekinu geti ljósritað íslenska þýðingu af fylgiseðlinum og látið fylgja hverjum pakka.

Vissulega er þessi lausn öruggari en að kaupa lyfin í póstkröfu frá öðrum löndum. 

 
Ég get líka alveg staðfest það að séríslenskar pakkningar eru rosalega dýrar (prentun pakkninga og uppsetning pökkunarlína) og að geta klipið af lotum sem eru framleiddar fyrir aðra markaði í Evrópu gætu sparað töluverða fjármuni.


mbl.is Heilbrigðisráðherra óskar eftir undanþágu vegna merkingar á lyfjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Töff verður halló með tímanum

Nú er ég byrjuð að vinna heima og nýt þess í botn.

Bakið hefur lagast talsvert og vil ég meina að það sé stöðugu stólaflakki að þakka, auk þess sem LaZboy stóllinn er mjög vinsæll. Asskoti er það ljúft að liggja í þægilegum stólnum, með Vh1 í gangi og fartölvuna í fanginu.

Já, ég ákvað að splæsa í minnsta pakkann á ADSL-sjónvarpinu (Skjárinn) og er því með kveikt á sjónvarpinu allan daginn. Ég er búin að komast að því að það er best að hafa Vh1 í gangi, þá næ ég að halda athyglinni að vinnunni, en er samt með (yfirleitt) góða tónlist í eyrum.

Þessi Vh1 síbylja hefur reyndar kennt mér eitt: Átrúnaðargoðin frá því ég var í gaggó fyrrihluta síðasta áratugar eldast ekkert sérlega vel. Mikið gat maður hlegið að hallærislegu eitís útlitinu, en nú sé ég það að 501 buxurnar og flannelskyrturnar voru ekkert sérlega smart. Og hárið! Jedúddamía!

Þegar maður fer að spá í því þá voru fötin frá þessum tíma ætluð til að gera unglinga að körlum og kerlingum.

 Nostalgían hellist yfir mig við þessa upprifjun: Ég nenni ekki að blogga meira, ætla að slökkva á Vh1 og skella Clueless í tækið. Stórleikur Aliciu Silverstone sem hin ofdekraða Cher er bara æði! Paul Rudd hættir heldur ekkert að vera sætur þrátt fyrir Levi's 501 og flannelskyrtu. Nammm...


En ég hef alltaf verið í rétti!

Tíðar ferðir þessarar steingeitar með drossíuna til Bílamálunar Sigursveins hafa ekki verið mér að kenna - ég hef alltaf verið í rétti og var drossían m.a.s. mannlaus í löglegu stæði þegar síðasta tjón varð.
mbl.is Fæddur undir stjörnu umferðaóhappa?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða heilvita maður ...

... leyfir barni að standa í bílnum á ferð?????

Ég er bara með hnút í maganum eftir að hafa lesið þetta. 

Og hvað er svona töff við að aka án bílbeltis? Mér finnst ég vera nakin ef ég er ekki í bílbelti - spenni mig meira að segja ef ég er aftur í leigubíl - og jafnvel í rútum ef belti eru til staðar. 


mbl.is Sýndi vítavert gáleysi með barn í bifreiðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþolinmæði ökumanna

Ég átti leið þarna um daginn og blöskraði framkoma annarra ökumanna.

Ég var á leið heim af ættarmóti á Kjalarnesinu og keyrði á löglegum hraða eins og endranær. Ég átti ekki orð yfir hve margir sáu ástæðu til að taka framúr mér á hlykkjóttum vegaköflum og jafnvel yfir óbrotna línu. Stubburinn lærði orðið Brjálæðingur í þessari ferð. 

Þegar kom að gatnamótunum við Þingvallaveg dró ég enn úr hraða og fylgdi skiltunum, úr 90 í 70 og síðan í 50 (hámarkshraðinn var ekki kominn niður í 30 þegar þetta var). Ég hélt að jeppinn fyrir aftan mig myndi keyra á mig! Ökumaðurinn var orðinn eldrauður í framan, enda var ég búin að þvælast fyrir honum "alla leiðina" frá bílastæðunum við Esjuna. Hann var sko búinn að sýna takta til framúraksturs tvisvar á þessum stutta kafla, en varð frá að hverfa vegna umferðar á móti.  Á fyrsta hringtorgi í Mosfellsbæ brunaði jeppinn framúr - með börn í bílnum! 


mbl.is Lögregla kölluð til vegna tillitsleysi ökumanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband