18.7.2007 | 11:03
Allir á völlinn!
Stelpurnar okkar verða á Laugardalsvelli kl 19:15. Ég hvet alla til að mæta og styðja efnilegu stúlkurnar okkar.
Þar sem leikurinn mun dragast inn á háttatíma Stubbsins ætla ég samt að láta mér nægja að mæta á Fylkisvöllinn kl 16 og sjá Pólland - England. Á föstudag kl 16 er stefnan aftur tekin á Fylkisvöll til að sjá Þýskaland - Noreg. Ætli maður skreppi ekki þaðan á Kópavogsvöll kl 19:15 til að sjá okkar stelpur taka á móti dönsku stelpunum.
Ég tel nokkuð góðar líkur á því að við munum sjá efnilegustu knattspyrnukonur Evrópu þessa vikuna.
Eina vandamálið er að ég veit ekki hverja ég mun styðja á Fylkisvellinum. Ætli ég fagni ekki bara hverju marki sem er skorað.
![]() |
Flautað til leiks á EM |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2007 | 10:47
GARG!
Mér líður eins og Don Kíkóta - sífellt að berjast við vindmyllur.
Það er með eindæmum að almenningur telur sig vita svarið við öllu og hrópar upp lausnir. "Við leggjum þetta bara niður" "Gerum þetta bara..."
Enn algengara er að fólk staðhæfi hluti sem það hefur bara ekki nokkurt vit á!
Hugsið fram í tímann:
Hvað gerist ef Lyfjastofnun verður lögð niður? Viljið þið hafa lyfjamarkaðinn á Íslandi algerlega eftirlitslausan?
Hvað gerist ef allir kaupa lyfin sín á netinu? Viljið þið ekki getað skroppið út í apótek og keypt ykkar lífsnauðsynlegu lyf samdægurs?
Hvað gerist ef Lyfjaverslun Ríkisins verður endurvakin? Ríkið mun ausa fjármagni í að koma á stofn fyrirtæki sem gæti brotið samkeppnislög. Ríkið mun þurfa að ausa peningum í stofnkostnað og þarf einhvernvegin að fá þá peninga til baka. Ég sé ekki að lyf frá Lyfjaverslun Ríkisins verði eitthvað ódýrari en frá öðrum - nema Ríkið brjóti samkeppnislög og ausi peningum í viðvarandi hallarekstur.
Ég hef sagt það áður og segi það enn: Eina leiðin til að fá almennilega samkeppni á lyfjamarkað og þar með almennilegt verð er að gera Ísland aðlaðandi til skráningar fyrir erlenda aðila. Í dag er markaðurinn svo lítill að það vill engin selja okkur lyf nema þeir sem eru þegar á markaði.
![]() |
Heimila ætti innflutning norrænna lyfja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.7.2007 | 16:34
Hvað ætli margir bloggarar afhausi mig núna?
Mér eru með öllu óskiljanleg viðbrögð bloggsamfélagsins við ályktun Lyfjastofnunar. Ákvörðun Lyfjastofnunar kemur mér bara nákvæmlega ekkert á óvart, enda er ég sammála henni.
Lög eru lög - það kemur skýrt fram í Lyfjalögum að póstverslun með lyf er bönnuð. Þetta er ekkert annað en póstverslun. Einu sinni vann ég sem nemi í annarri stóru keðjunni (hluti af tríóinu sem allir kenna um hátt lyfjaverð) og afgreiddi sjúkling utan af landi. Sjúklingurinn átti ekki til orð yfir hversu miklu ódýrara var að kaupa lyfin hjá okkur en hjá apótekaranum í heimabæ sínum og vildi fá að senda til okkar lyfseðlana og fá lyfin í pósti. (Hmm, Svíþjóð - Reykjavík, hver er munurinn??) Ég ræddi þetta við lyfsalann og hann sagðist gjarnan vilja aðstoða manninn en póstverslun er bönnuð. Hann hefði getað misst lyfsöluleyfið sitt hefði hann gert það sem sjúklingurinn vildi.
Þá spyr einhver: "Hvað með heimsendingar apótekanna?" Heimsendingar eru leyfilegar á verslunarsvæði apóteksins (skilgreiningaratriði) og þá skal starfsmaður apóteksins sjá um afhendingu lyfjanna. Vakni spurningar um lyfið eða afgreiðslu lyfsins skal starfsmaðurinn geta haft beint samband við lyfjafræðinginn sem afgreiddi lyfið og annað hvort miðla upplýsingunum eða gefa sjúklingi samband við lyfjafræðinginn. Starfsmaður Póstsins getur það ekki og það er svolítið erfitt að ætla að ná í sænska lyfjafræðinginn í síma.
"En það er læknir sem er að senda þetta! Er ekki hægt að tala bara við hann ef spurningar vakna?" Jú, ef hann hefur starfsleyfi sem heildsali/innflytjandi lyfja eða til lyfsölu þá ber honum skylda til að svara spurningum. Í þessu tilfelli er það ekki svo. Þar að auki vil ég benda á að lyfjafræði er 5 ára háskólanám þar sem farið er djúpt ofaní saumana á hvernig lyf virka í líkamanum, eðli milliverkana og svo margt annað sem tengist lyfjum og rétt er snert á í læknanáminu. Sá aðili sem best er til þess fallinn að svara spurningum um lyf er yfirleitt lyfjafræðingur, en læknar sem eru sérfræðingar á sviði lyfsins (hjartalæknir vegna hjartalyfja, gigtarlæknir vegna bólgulyfja o.s.frv.) vita yfirleitt sínu viti. Ég fer ekki að spyrja bæklunarlækni um atriði sem tengjast hormónalyfinu mínu.
Ég get alveg verið sammála því að lyf keypt í Svíþjóð ættu ekki að vera verri en lyf keypt á Íslandi. Ég hef töluverð samskipti við sænsku Lyfjastofnunina í mínu starfi og veit að þar starfa góðir sérfræðingar með fagmennsku að leiðarljósi. Ég er hins vegar ekki viss um að ég hefði góða samvisku ef ég starfaði í sænsku apóteki og afgreiddi mann (hvort sem hann er læknir eða ekki) vitandi það að hann hafi engin persónuleg samskipti við sjúklinginn sem skal taka lyfið og þar af leiðandi hefði ég enga tryggingu fyrir því að sjúklingurinn fái aðstoð við að skilja fylgiseðilinn eða aðrar mikilvægar leiðbeiningar sem fylgja lyfinu.
Svo má líka horfa á þetta út frá frelsi markaðsins. Sé þetta leyft er ekkert sem stoppar að einhver óprúttinn aðili noti þetta sem fordæmi og opni sína eigin heimasíðu með svipaðri þjónustu. Hann segist kaupa lyfin frá Spáni (innan EMEA og því sömu kröfur til markaðsleyfis) og sendir þau til Íslands frá Spáni. Við höfum nákvæmlega enga tryggingu fyrir því að lyfin séu ekki að koma frá Mexíkó eða bara frá einhverjum "dúdda" á e-bay. Þesskonar svik er gífurlegt vandmál í BNA, þar sem markaðurinn ræður öllu. Þesskonar svik hafa endað með dauða saklausra sjúklinga sem hugðust spara sér aurinn.
Hátt lyfjaverð á Íslandi er ekki einfalt mál. Markaðurinn er mjög lítill og reglur mjög strangar. Í starfi mínu hef ég rekist á það að erlendir aðilar sjá sér ekki hag í að afgreiða pantanir til Íslands og því lenda sum lyf á "bið" í apótekum (eru ófáanleg). Einnig hafa fjölmörg samheitalyf verið tekin af markaði vegna þess að sala þeirra stóð ekki undir kostnaði við viðhald markaðsleyfis og framleiðslu lyfsins.
Um daginn setti ég fram hugmynd sem lengi hefur verið í kollinum á mér. Hvernig er best að ná niður lyfjaverði?
![]() |
Lyfjastofnun telur vefsíðuna minlyf.net vera ólöglega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.7.2007 | 12:26
Jæja...
Ég er eiginlega alveg farin að fá nóg af Vikku blessuninni.
Davíð, hinn meinti framhjáhaldari, er farinn að komast í hóp átrúnaðargoða Stubbsins. Sérstaklega eftir að honum áskotnaðist þessi fíni enski landsliðsbúningur merktum Beckham og fékk Beckham hárgreiðslu á klipparastofunni. Greiðslan er reyndar nokkuð úrelt, enda um nettan hanakamb að ræða ... er Dabbi ekki búin að snoða og safna og aflita síðan þá???
Ég mun leyfa Stubbinum að dást að boltafimi Dabba, en vona að hann taki kallinn ekki algerlega í Guðatölu að öðru leiti. Nóg eigum við af frambærilegum íþróttamönnum sem hafa ekki þungan bagga frægðarinnar að bera og eru jafnvel enn betri fyrirmynd barnanna okkar. Ég er a.m.k. ánægð með aðdáun stubbsins á línumanni íslenska landsliðsins í handknattleik.
![]() |
Victoria segir frá ástarsorg sinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2007 | 11:29
Hjúkkit!
Ég var farin að kvíða því að eiga í ágúst
Sá fyrir mér dauðþreyttar ljósmæður eftir þessa svakalegu törn og engin nýútskrifuð hafði ráðið sig til sumarafleysinga.
Ég var búin að ákveða að fá að liggja inni og hvíla mig eftir fæðinguna, en skipti um skoðun eftir fréttirnar af "öllum þessum fæðingum". Ég held ég skipti ekki aftur um skoðun og reyni að fá að fara heim á fyrsta sólarhring þrátt fyrir að fæðingarnar séu færri en áður var talið.
Undirbúningur gagnvart vinnunni er hafinn: Tölvupóstar með tilkynningum um nýja tengiliði vegna verkefnanna minna fljúga út um allan heim og ég fría mig smátt og smátt á meðan. Ég stefni á að vera búin að losa öll verkefnin mín í næstu viku og dunda mér við gagnafærslu á milli netþjóna fram að fæðingu. Ég get gert það heima
![]() |
1.489 börn fæddust á LSH fyrri hluta árs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.7.2007 | 21:46
Hvernig er best að ná niður lyfjaverði?
Á undanförnum árum hefur talsverð umræða verið um hátt lyfjaverð hér á landi. Ég get alveg verið sammála því að lyfjaverð er of hátt og að eitthvað þurfi að gera til að auka samkeppni.
Ég er hins vegar ekki sammála því að netverslun með lyf sé lausnin. Með netverslun falla lyf í flokk með venjulegri neysluvöru og erfitt verður að þjónusta sjúklinginn á þann hátt sem nauðsynlegur er. Hafa verður í huga að rétt notkun lyfja getur verið lífsspursmál.
Ég er heldur ekki sammála því að Ríkið eigi að skipta sér af innflutningi lyfja og endurvekja Lyfjaverslun Ríkisins (sem rann saman við Delta-Pharmaco-Actavis á sínum tíma).
Áður en ég kem að snilldarhugmyndinni minni vil ég nefna nokkrar staðreyndir sem stundum gleymast í umræðunni:
* Lyfjaverð er ákveðið af Lyfjagreiðslunefnd, sem er skipuð af Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og birt í Lyfjaverðskrá. Markaðsleyfishafar þurfa að sækja um það verð sem þeir hyggjast setja á sérlyfið og eru ákveðnar reglur sem þarf að fylgja þegar verðið er ákvarðað. Markaðsleyfishafar geta síðan veitt smásölum afslátt af heildsöluverði og smásalar geta veitt sjúklingum afslátt af smásöluverði. Endurgreiðsla/niðurgreiðsla Tryggingarstofnunar miðast við verð í Lyfjaverðskrá.
* Frumlyf á Íslandi eru ekki mikið dýrari en á nágrannalöndunum. Verðmunur liggur einna helst í verði samheitalyfja. (Skv. upplýsingum frá Frumtök, samtök frumlyfjaframleiðanda.)
* Við veitingu markaðsleyfa á Íslandi styðst Lyfjastofnun við samevrópskar reglur. Reglur þessar eru nokkuð strangar og tekur Lyfjastofnun marga mánuði að yfirfara hverja umsókn um markaðsleyfi og breytingar á markaðsleyfum.
* Lyfjastofnun er rekin á gjöldum sem innheimt eru af öllum þeim aðilum sem þurfa samþykki Lyfjastofnunar til sinna starfa. Einnig tekur Lyfjastofnun gjöld vegna skráningarferla. Ég hef ekki fundið heimildir sem benda til þess að Lyfjastofnun sé á fárlögum.
Verði Lyfjaverslun Ríkisins endurvakin í þeirri mynd sem fyrrverandi Heilbrigðisráðherra virtist sjá í hillingum, er nokkuð ljóst að álag á Lyfjastofnun myndi aukast. Ekkert fyrirtæki, ríkisrekið sem einkarekið, skal undanþegið reglum um markaðsleyfi og því þyrfti endurvakin Lyfjaverslun Ríkisins að sækja um markaðsleyfi fyrir öll þau samheitalyf sem það hyggst markaðssetja. Umfjöllun um markaðsleyfi tekur tíma og því væri Lyfjaverslunin rekin með töluverðum halla þar til fyrstu markaðsleyfin fást og hægt er að hefja sölu á lyfjunum. Eins og Lyfjastofnun er mönnuð er alls óvíst að afgreiðsla markaðsleyfa taki jafn stuttan tíma og hún tekur í dag. Því þyrfti að ráða fleiri sérfræðinga til starfa hjá Lyfjastofnun auk þeirra sérfræðinga sem þyrfti að ráða til Lyfjaverslunar. Stofnkostnaður Ríkisins yrði töluverður auk þeirra erfiðleika sem hægt er að sjá fyrir við að manna allar sérfræðingsstöðurnar.
Ég sé fyrir mér möguleikann á því að nýr Heilbrigðisráðherra sjái að stundum þurfi að leggja í kostnað til að ná fram sparnaði til lengri tíma. Um það snýst mín hugmynd.
Ég er mjög hrifin af því sem í skráningarbransanum er kallað "danska módelið". Danir lögðu fjármuni í að byggja upp DKMA (dönsku lyfjastofnunina) og þjálfa sérfræðinga til starfa við mat á skráningarumsóknum vegna samheitalyfja. Út á við markaðssettu þeir DKMA sem faglega og skilvirka lyfjastofnun, hentuga sem RMS land í miðlægu skráningarferli.
Miðlæg skráningarferli eru tvenns konar, MRP (Mutual Recognition Procedure) og DCP (De-Centralized Procedure):
* MRP: Byrjað er á að sækja um markaðsleyfi í einu landi (RMS). Lyfjastofnun í því landi yfirfer skráningarumsóknina samkvæmt þeim reglum sem gilda innan Evrópu og veitir markaðsleyfi í því landi sem lyfjastofnunin starfar. Þegar markaðsleyfi er fengið sækir markaðsleyfishafinn um að MRP ferli hefjist. Markaðsleyfishafinn velur eitt eða fleiri lönd (CMS) til að sækja um markaðsleyfi í, byggt á því leyfi sem þegar er fengið í RMS landinu. MRP ferli gengur tiltölulega hratt fyrir sig og CMS-löndin byggja samþykki sitt á skýrslu RMS-landsins.
* DCP: Umsækjandi markaðsleyfis sækir um "slot" í DCP ferli hjá RMS landi og velur CMS lönd eins og áður. Munurinn á MRP ferli og DCP ferli er að RMS landið yfirfer umsóknina á sama tíma og CMS löndin (ekki á undan) en er eftir sem áður við stjórnvölin í ferlinu. DCP ferli skal fylgja föstum tímalínum.
Ekki öll lönd gefa sig út fyrir að vera RMS lönd og eru þau vinsælustu uppbókuð jafnvel mörg ár fram í tímann. Því er orðinn skortur á RMS löndum og er ástandið farið að tefja fyrir skráningum samheitalyfja í hinum ýmsu löndum.
Mín tillaga felur í sér að Lyfjastofnun verði stórlega styrkt og markvisst verði stefnt að menntun sérfræðinga í Evrópuskráningum hjá Lyfjastofnun. Endurmenntun HÍ hefur þegar sett á fót nám á meistarastigi í lyfjaskráningum. Lyfjastofnun Íslands verði kynnt til samheitalyfjafyrirtækja sem ákjósanlegt RMS land og þannig fá auknar umsóknir um markaðsleyfi samheitalyfja. Á sama tíma væri hægt að liðka reglur þannig að hægt sé að samnýta fylgiseðla og pakkningar frá öðrum Evrópulöndum. Einnig væri hægt að setja reglur sem krefjast þess að til að viðhalda markaðsleyfinu þurfi markaðsleyfishafinn að hafa lyfið á markaði og þannig auka úrval og samkeppni á samheitalyfjamarkaði.
Þetta virkaði í Danmörku - af hverju ætti þetta ekki að virka hér?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2007 | 23:50
Þreyta
Ég er búin að vera að vinna í allt kvöld. Smá vandræði með forrit sem ég þarf að nota (Microsoft kjaft...#$%#$&#$$).
Ég er því ekki að nenna að skrifa pistilinn minn núna. Ég er komin með hálfa blaðsíðu í Word af punktum um Lyfjalögin, þ.a. pistillinn á morgun verður líklega um þau. Galdralausnin mín til lækkunar lyfjaverðs verður að bíða betri tíma, en ég lofa pistli um það í þessari viku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.7.2007 | 13:19
Líklega ólöglegt - að mínu mati siðlaust - alveg pottþétt ófaglegt!
Æ,æ,æ!
Ég eiginlega veit ekki hvernig ég á að byrja og hve djúpt ég á að kafa. Sem lyfjafræðingur hef ég mjög illan bifur á svona framtaki. Það er ekki nóg með að farið sé á sveig við allar reglur, heldur er eðlileg þjónusta við sjúklingana engin.
Þeim sem afhenda lyf ber skylda til að ganga úr skugga um að lyfið sé rétt afgreitt. Þess vegna er það yfirleitt aldrei sami aðilinn sem skrifar lyfseðilinn og afgreiðir lyfið. Þar að auki eru apótekin með tvöfalt eftirlit, þar sem lyfjafræðingur kvittar út lyfið og lyfjatæknir les yfir að auki. Ef skilaboð þurfa að berast sjúklingi vegna notkunar lyfsins er þeim komið á framfæri í apótekinu. Læknir staðsettur í Svíþjóð sem sendir í póstkröfu hefur ekki þetta samband við sjúklinginn.
Markaðsleyfishafar lyfja bera einnig töluverða ábyrgð. Þeim ber að fylgjast með því að lyfin standist kröfur markaðsleyfisins, að fylgiseðlar séu á íslensku og að safna saman upplýsingum um aukaverkanir og milliverkanir frá yfirvöldum erlendis. (Ég fjalla um aukaverkanatilkynningar í þessum pistli.) Markaðsleyfishafarnir þurfa að gefa út reglulega skýrslu um pharmacovigilance (lyfjagát) lyfsins og koma á framfæri til yfirvalda ábendingum um hvort að aukning sé í tilkynningum erlendis o.s.frv. Læknir staðsettur í Svíþjóð sem sendir í póstkröfu getur ekki uppfyllt þessi skilyrði.
Æ, það er svo margt annað sem mig langar að kommenta á þetta. Þar sem þetta er síðasti góðviðrisdagurinn í bili ætla ég að fresta því fram á kvöld eða morgun. Ég mun alveg örugglega deila með ykkur hugleiðingum mínum um leiðir til að lækka verð á samheitalyfjum.
![]() |
Býður ódýrari lyf á netinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.7.2007 | 08:29
Afsökunarbeiðni
Hehemm, ég held ég skuldi Jóni Vali afsökunarbeiðni. Blóðið var enn heitt eftir þá atburði sem ég tók sem móðgun þegar ég skrifaði síðustu færslu og því var orðbragðið í garð guðfræðingsins kannski óþarflega kalt. Ég vil kenna hormónunum um hversu fljót ég er upp á nef mér þessa dagana og langrækin, en það er auðvitað engin afsökun.
Eftir stendur að ég er enn sömu skoðunar um málefni pistilsins. Hefði einhver spurt mig um þetta fyrir 10-12 árum síðan væri svarið annað. Í þá daga var ég hinn versti púrítani og lífsreynslan ekki farin að skola til kennsluna úr KFUK og Æskulýðsstarfinu. Já, það kemur kannski einhverjum á óvart, en í gagnfræðaskóla stundaði ég þjóðdansa og var virk í Æskulýðsstarfi Þjóðkirkjunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2007 | 12:43
Ég læt ekki predikara vaða yfir mig!
Af einskærri forvitni rambaði ég inn á bloggsíðu guðfræðings nokkurs, er þykir siðavandur maður. Siðvendni er að mínu mati túlkunaratriði, það sem sumum finnst siðvendni, finnst öðrum hræsni og þriðja hópnum ekki nógu púrítanaískt, en það er útfyrir efnið. Guðfræðingur þessi bloggar um skoðanir sínar á fóstureyðingum og fær almennan halelujah-kór karlmanna sem telja sig siðavanda í athugasemdakerfi sitt.
Í megindráttum eru guðfræðingurinn og halelújah-kórinn alfarið á móti fóstureyðingum, sama hver ástæða þeirra er. Að vísu vogar einn kommentarinn sér að hafa þá skoðun að betra sé að hafa þær löglegar og aðgengilegar á stofum þar sem fagmenn (þ.e. læknar) kunna til verka, heldur en að stúlkukindurnar neyðist inn í bakherbergi skottulækna og kerlinga. Þessi góði maður er umsvifalaust skotinn niður af guðfræðingi og halelújah-kór fyrir þessa skoðun sína.
Sjálfstæðis-femínistanum í mér rann blóðið til skyldunnar að standa upp og mótmæla. Hlutirnir eru ekki alltaf svona einfaldir. Því miður get ég ekki haft athugasemd mína eftir orðrétt, þar sem guðfræðingurinn var á öndverðri skoðun og eyddi henni með þeirri útskýringu að hún væri "nafnlaus" og nafnlausum athugasemdum væri eytt umsvifalaust. Hinn nafnlausi "Predikari" fær hins vegar sínar tvær færslur óáreittar, þar sem hann lofar guðfræðinginn fyrir skoðanir sínar. Ég mun reyna að rifja upp athugasemd mína eftir bestu getu og dæmi hver sem vill:
Mikið vildi ég að fólk hætti að líta á málin svona svart og hvítt. Auðvitað er áhyggjuefni hinn mikli fjöldi fóstureyðinga sem framkvæmdar eru á ári. Vissulega eru til ungar stúlkur (og piltar) sem líta á fóstureyðingu sem hverja aðra getnaðarvörn og er það hryggilegt. Hins vegar eru alltaf tilvik sem réttlæta aðgengi kvenna að löglegum fóstureyðingarstofum.
Hvað með fórnarlömb nauðgana þar sem barn kemur undir? Hvað með foreldra sem standa frammi fyrir því að barnið þeirra er svo veikt að það lifir ekki út meðgönguna eða fæðinguna? Ég held það hljóti að vera hræðileg tilfinning að ganga fulla meðgöngu og vita það í 20+ vikur að barnið muni aldrei lifa.
Ég efast um að ég muni nokkurn tíman velja að fara í fóstureyðingu og ég vona að þær aðstæður komi aldrei upp að ég þurfi að hugleiða valkostinn. Hins vegar vil ég ekki standa í vegi fyrir þeim mannréttindum kynsystra minna að hafa val.
Hana nú! Kommenti hver sem vill - ekkert verður fjarlægt nema það komi efni pistilsins ekki við eða sé argasta skítkast.
Ég vil líka taka það fram að þessa dagana er ég gengin rúmlega 34 vikur með mitt annað barn og get því rétt ímyndað mér vanlíðan móður sem þarf að horfast í augu við ókunnuga og svara spurningum um settan dag og kyn - ef hún veit það að barnið mun ekki lifa. Trúið mér; ótrúlegasta fólk telur sig hafa rétt á því að spyrja nærgöngulla spurninga bara af því að maður er með bumbuna út í loftið.