Færsluflokkur: Bloggar

Yfirgengilega löt

Ég er yfirgengilega löt þessa dagana. Ætli kroppurinn sé að segja mér að slappa af og safna kröftum?

Í dag eru 10 dagar í settan dag - ég hef nettan grun um að það séu c.a. 20 dagar í fæðinguna sjálfa. A.m.k. ef ég líkist mömmu eitthvað, en hún gekk 10 daga framyfir með okkur öll. Ætli 19. ágúst sé málið?

Nex dekraði mig í dag - kannski þess vegna sem ég er svona löt? Hann sá um að fara með Stubbinn á fótboltaæfingu og ég fékk að kúra mig í Lay-Z-Boy stólnum á meðan. Hann eldaði síðan grænmetis-"wok" í kvöldmat og gekk frá eftir matinn líka. Kallinn er alveg að kafna úr framtakssemi - hann er m.a.s. kominn í íþróttagallann og er að fara út að skokka. Og ég er löt!

 Ég er hins vegar búin að ákveða að sjónvarpsdagskráin "sökkar" þetta mánudagskvöldið og er að fara í bað ... ef ég nenni að standa upp og láta renna í baðið.


Skref í rétta átt?

Það er ánægjulegt að sjá að heilbrigðisráðherra lítur til annarra lausna en að stofna Lyfjaverslun Ríkisins eða neyða heildsala og smásala til að taka á sig frekari álagningarskerðingu.

Hitt er svo annað mál hvernig skuli útfæra þessa lausn. Ég tel að það sé nauðsynlegt að pakkningar og fylgiseðlar séu á íslensku. Líklega er einfaldast lausnin að heildsalar geti límt merkingar á pakkningarnar og að lyfjafræðingar í apótekinu geti ljósritað íslenska þýðingu af fylgiseðlinum og látið fylgja hverjum pakka.

Vissulega er þessi lausn öruggari en að kaupa lyfin í póstkröfu frá öðrum löndum. 

 
Ég get líka alveg staðfest það að séríslenskar pakkningar eru rosalega dýrar (prentun pakkninga og uppsetning pökkunarlína) og að geta klipið af lotum sem eru framleiddar fyrir aðra markaði í Evrópu gætu sparað töluverða fjármuni.


mbl.is Heilbrigðisráðherra óskar eftir undanþágu vegna merkingar á lyfjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Töff verður halló með tímanum

Nú er ég byrjuð að vinna heima og nýt þess í botn.

Bakið hefur lagast talsvert og vil ég meina að það sé stöðugu stólaflakki að þakka, auk þess sem LaZboy stóllinn er mjög vinsæll. Asskoti er það ljúft að liggja í þægilegum stólnum, með Vh1 í gangi og fartölvuna í fanginu.

Já, ég ákvað að splæsa í minnsta pakkann á ADSL-sjónvarpinu (Skjárinn) og er því með kveikt á sjónvarpinu allan daginn. Ég er búin að komast að því að það er best að hafa Vh1 í gangi, þá næ ég að halda athyglinni að vinnunni, en er samt með (yfirleitt) góða tónlist í eyrum.

Þessi Vh1 síbylja hefur reyndar kennt mér eitt: Átrúnaðargoðin frá því ég var í gaggó fyrrihluta síðasta áratugar eldast ekkert sérlega vel. Mikið gat maður hlegið að hallærislegu eitís útlitinu, en nú sé ég það að 501 buxurnar og flannelskyrturnar voru ekkert sérlega smart. Og hárið! Jedúddamía!

Þegar maður fer að spá í því þá voru fötin frá þessum tíma ætluð til að gera unglinga að körlum og kerlingum.

 Nostalgían hellist yfir mig við þessa upprifjun: Ég nenni ekki að blogga meira, ætla að slökkva á Vh1 og skella Clueless í tækið. Stórleikur Aliciu Silverstone sem hin ofdekraða Cher er bara æði! Paul Rudd hættir heldur ekkert að vera sætur þrátt fyrir Levi's 501 og flannelskyrtu. Nammm...


En ég hef alltaf verið í rétti!

Tíðar ferðir þessarar steingeitar með drossíuna til Bílamálunar Sigursveins hafa ekki verið mér að kenna - ég hef alltaf verið í rétti og var drossían m.a.s. mannlaus í löglegu stæði þegar síðasta tjón varð.
mbl.is Fæddur undir stjörnu umferðaóhappa?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða heilvita maður ...

... leyfir barni að standa í bílnum á ferð?????

Ég er bara með hnút í maganum eftir að hafa lesið þetta. 

Og hvað er svona töff við að aka án bílbeltis? Mér finnst ég vera nakin ef ég er ekki í bílbelti - spenni mig meira að segja ef ég er aftur í leigubíl - og jafnvel í rútum ef belti eru til staðar. 


mbl.is Sýndi vítavert gáleysi með barn í bifreiðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþolinmæði ökumanna

Ég átti leið þarna um daginn og blöskraði framkoma annarra ökumanna.

Ég var á leið heim af ættarmóti á Kjalarnesinu og keyrði á löglegum hraða eins og endranær. Ég átti ekki orð yfir hve margir sáu ástæðu til að taka framúr mér á hlykkjóttum vegaköflum og jafnvel yfir óbrotna línu. Stubburinn lærði orðið Brjálæðingur í þessari ferð. 

Þegar kom að gatnamótunum við Þingvallaveg dró ég enn úr hraða og fylgdi skiltunum, úr 90 í 70 og síðan í 50 (hámarkshraðinn var ekki kominn niður í 30 þegar þetta var). Ég hélt að jeppinn fyrir aftan mig myndi keyra á mig! Ökumaðurinn var orðinn eldrauður í framan, enda var ég búin að þvælast fyrir honum "alla leiðina" frá bílastæðunum við Esjuna. Hann var sko búinn að sýna takta til framúraksturs tvisvar á þessum stutta kafla, en varð frá að hverfa vegna umferðar á móti.  Á fyrsta hringtorgi í Mosfellsbæ brunaði jeppinn framúr - með börn í bílnum! 


mbl.is Lögregla kölluð til vegna tillitsleysi ökumanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað ætli margir bloggarar afhausi mig núna?

Mér eru með öllu óskiljanleg viðbrögð bloggsamfélagsins við ályktun Lyfjastofnunar. Ákvörðun Lyfjastofnunar kemur mér bara nákvæmlega ekkert á óvart, enda er ég sammála henni.

Lög eru lög - það kemur skýrt fram í Lyfjalögum að póstverslun með lyf er bönnuð. Þetta er ekkert annað en póstverslun. Einu sinni vann ég sem nemi í annarri stóru keðjunni (hluti af tríóinu sem allir kenna um hátt lyfjaverð) og afgreiddi sjúkling utan af landi. Sjúklingurinn átti ekki til orð yfir hversu miklu ódýrara var að kaupa lyfin hjá okkur en hjá apótekaranum í heimabæ sínum og vildi fá að senda til okkar lyfseðlana og fá lyfin í pósti. (Hmm, Svíþjóð - Reykjavík, hver er munurinn??) Ég ræddi þetta við lyfsalann og hann sagðist gjarnan vilja aðstoða manninn en póstverslun er bönnuð. Hann hefði getað misst lyfsöluleyfið sitt hefði hann gert það sem sjúklingurinn vildi.

Þá spyr einhver: "Hvað með heimsendingar apótekanna?" Heimsendingar eru leyfilegar á verslunarsvæði apóteksins (skilgreiningaratriði) og þá skal starfsmaður apóteksins sjá um afhendingu lyfjanna. Vakni spurningar um lyfið eða afgreiðslu lyfsins skal starfsmaðurinn geta haft beint samband við lyfjafræðinginn sem afgreiddi lyfið og annað hvort miðla upplýsingunum eða gefa sjúklingi samband við lyfjafræðinginn. Starfsmaður Póstsins getur það ekki og það er svolítið erfitt að ætla að ná í sænska lyfjafræðinginn í síma.

"En það er læknir sem er að senda þetta! Er ekki hægt að tala bara við hann ef spurningar vakna?" Jú, ef hann hefur starfsleyfi sem heildsali/innflytjandi lyfja eða til lyfsölu þá ber honum skylda til að svara spurningum. Í þessu tilfelli er það ekki svo. Þar að auki vil ég benda á að lyfjafræði er 5 ára háskólanám þar sem farið er djúpt ofaní saumana á hvernig lyf virka í líkamanum, eðli milliverkana og svo margt annað sem tengist lyfjum og rétt er snert á í læknanáminu. Sá aðili sem best er til þess fallinn að svara spurningum um lyf er yfirleitt lyfjafræðingur, en læknar sem eru sérfræðingar á sviði lyfsins (hjartalæknir vegna hjartalyfja, gigtarlæknir vegna bólgulyfja o.s.frv.) vita yfirleitt sínu viti. Ég fer ekki að spyrja bæklunarlækni um atriði sem tengjast hormónalyfinu mínu.

Ég get alveg verið sammála því að lyf keypt í Svíþjóð ættu ekki að vera verri en lyf keypt á Íslandi. Ég hef töluverð samskipti við sænsku Lyfjastofnunina í mínu starfi og veit að þar starfa góðir sérfræðingar með fagmennsku að leiðarljósi. Ég er hins vegar ekki viss um að ég hefði góða samvisku ef ég starfaði í sænsku apóteki og afgreiddi mann (hvort sem hann er læknir eða ekki) vitandi það að hann hafi engin persónuleg samskipti við sjúklinginn sem skal taka lyfið og þar af leiðandi hefði ég enga tryggingu fyrir því að sjúklingurinn fái aðstoð við að skilja fylgiseðilinn eða aðrar mikilvægar leiðbeiningar sem fylgja lyfinu.

Svo má líka horfa á þetta út frá frelsi markaðsins. Sé þetta leyft er ekkert sem stoppar að einhver óprúttinn aðili noti þetta sem fordæmi og opni sína eigin heimasíðu með svipaðri þjónustu. Hann segist kaupa lyfin frá Spáni (innan EMEA og því sömu kröfur til markaðsleyfis) og sendir þau til Íslands frá Spáni. Við höfum nákvæmlega enga tryggingu fyrir því að lyfin séu ekki að koma frá Mexíkó eða bara frá einhverjum "dúdda" á e-bay. Þesskonar svik er gífurlegt vandmál í BNA, þar sem markaðurinn ræður öllu. Þesskonar svik hafa endað með dauða saklausra sjúklinga sem hugðust spara sér aurinn.

 

Hátt lyfjaverð á Íslandi er ekki einfalt mál. Markaðurinn er mjög lítill og reglur mjög strangar. Í starfi mínu hef ég rekist á það að erlendir aðilar sjá sér ekki hag í að afgreiða pantanir til Íslands og því lenda sum lyf á "bið" í apótekum (eru ófáanleg). Einnig hafa fjölmörg samheitalyf verið tekin af markaði vegna þess að sala þeirra stóð ekki undir kostnaði við viðhald markaðsleyfis og framleiðslu lyfsins.

Um daginn setti ég fram hugmynd sem lengi hefur verið í kollinum á mér. Hvernig er best að ná niður lyfjaverði? 


mbl.is Lyfjastofnun telur vefsíðuna minlyf.net vera ólöglega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jæja...

Ég er eiginlega alveg farin að fá nóg af Vikku blessuninni.

Davíð, hinn meinti framhjáhaldari, er farinn að komast í hóp átrúnaðargoða Stubbsins. Sérstaklega eftir að honum áskotnaðist þessi fíni enski landsliðsbúningur merktum Beckham og fékk Beckham hárgreiðslu á klipparastofunni. Greiðslan er reyndar nokkuð úrelt, enda um nettan hanakamb að ræða ... er Dabbi ekki búin að snoða og safna og aflita síðan þá???

Ég mun leyfa Stubbinum að dást að boltafimi Dabba, en vona að hann taki kallinn ekki algerlega í Guðatölu að öðru leiti. Nóg eigum við af frambærilegum íþróttamönnum sem hafa ekki þungan bagga frægðarinnar að bera og eru jafnvel enn betri fyrirmynd barnanna okkar.  Ég er a.m.k. ánægð með aðdáun stubbsins á línumanni íslenska landsliðsins í handknattleik.  


mbl.is Victoria segir frá ástarsorg sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þreyta

Ég er búin að vera að vinna í allt kvöld. Smá vandræði með forrit sem ég þarf að nota (Microsoft kjaft...#$%#$&#$$).

Ég er því ekki að nenna að skrifa pistilinn minn núna. Ég er komin með hálfa blaðsíðu í Word af punktum um Lyfjalögin, þ.a. pistillinn á morgun verður líklega um þau. Galdralausnin mín til lækkunar lyfjaverðs verður að bíða betri tíma, en ég lofa pistli um það í þessari viku. 


Afsökunarbeiðni

Hehemm, ég held ég skuldi Jóni Vali afsökunarbeiðni. Blóðið var enn heitt eftir þá atburði sem ég tók sem móðgun þegar ég skrifaði síðustu færslu og því var orðbragðið í garð guðfræðingsins kannski óþarflega kalt. Ég vil kenna hormónunum um hversu fljót ég er upp á nef mér þessa dagana og langrækin, en það er auðvitað engin afsökun.

Eftir stendur að ég er enn sömu skoðunar um málefni pistilsins. Hefði einhver spurt mig um þetta fyrir 10-12 árum síðan væri svarið annað. Í þá daga var ég hinn versti púrítani og lífsreynslan ekki farin að skola til kennsluna úr KFUK og Æskulýðsstarfinu. Já, það kemur kannski einhverjum á óvart, en í gagnfræðaskóla stundaði ég þjóðdansa og var virk í Æskulýðsstarfi Þjóðkirkjunnar. Wink 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband